Rúmar 162 milljónir til ferðamannastaða á Austurlandi

Alls komu rúmar 162 milljónir til sex mismunandi verkefna á Austurlandi við úthlutun úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Langstærsti styrkurinn vegna frekari uppbyggingar við Stuðlagil.

Menningar- og viðskiptaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir tilkynnti úthlutanir sjóðsins þetta árið í lok síðustu viku en að þessu sinni voru tæpar 539 milljónir í heildina til skiptanna úr sjóðnum. Styrkir austur á land nema því um 30%  af úthlutun árins. Sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða en jafnframt stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið.

Félagið Jökuldalur slf. fékk langhæsta styrkinn upp á 90 milljónir króna en þeim peningum á að verja til að bæta öryggi ferðafólks og efla náttúruvernd við Stuðlagilið. Sjóðurinn hefur undanfarin fjögur ár veitt um 244 milljónum alls til uppbyggingar á þessum vinsælasta ferðamannaastað Austurlands.

Sveitarfélagið Múlaþing fékk rúmar 28 milljónir króna til uppbyggingar gönguleiðar við Eggin í Gleðivík á Djúpavogi, Fljótsdalshreppur rúmlega 15 milljónir til náttúruverndar og stígagerðar við Hengifoss og þá fékk Fjarðabyggð tvo styrki. Annars vegar upp á 25 milljónir króna vegna gerðar göngustíga við Streitishvarf í Breiðdalsvík og hins vegar tæplega 2,5 milljónir vegna hönnunarvinnu við Bleiksárfoss í Eskifirði. Þá hlaut minjasafnið Burstarfell 900 þúsund krónur til að stækka bílastæði og auka aðgengi fatlaðra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.