Tekið hart á sjálfboðaliðum á samkeppnismarkaði: Vitum hverja um ræðir

Framkvæmdastjóri AFLs starfgreinafélags segir að hart verði tekið á atvinnurekendum sem noti sjálfboðaliða sem vinnuafl á samkeppnismarkaði. Átta Austfirðingar auglýsa eftir sjálfboðaliðum á vefnum WorkAway.info.


Störfin sem auglýst eru eystra á vefnum eru af ýmsum toga. Óskað er eftir umönnun barna, húshjálp, matvælaframleiðslu, umsjá dýra og bændagistingu.

Sjálfboðaliðarnir fá ekki laun en hins vegar húsaskjól, mat, takmarkaða vinnuskyldu og tækifæri til að ferðast um landið.

Kröfurnar eru misjafnar. Í einni auglýsingunni er til dæmis tekið fram að staðurinn sé afskekktur og dimmir veturnir taki á andlega auk þess sem líkamlegan styrk og vissan þroska þurfi til að umgangast dýrin.

Starfsgreinasambandið hefur hafið átak gegn ólöglegri sjálfboðaliðastarfsemi og sent atvinnurekendum sem auglýsa eftir sjálfboðaliðum bréf. Aðildarfélög sambandsins, AFL þeirra á meðal, fylgja átakinu eftir á heimaslóðum.

„Við erum að vakta þessar síður. Við vitum hvaða bæi um ræðir og munum fylgja þessu mjög hart eftir í sumar,“ segir Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs.

Sverrir segir að ráðning sjálfboðaliða í störf sem teljist á samkeppnismarkaði sé litin alvarlegum augum. Hún skekk samkeppnisstöðu þeirra sem fari að settum reglum, svo sem í ferðaþjónustu. Hann minnir einnig á að kjarasamningar séu í gildi við Bændasamtökin um störf í sveitum.

Í tilkynningu Starfsgreinasambandsins segir að sumir atvinnurekendur geri sér ekki grein fyrir að auglýsingar þeirra séu ólöglegar. Sumir hafi kippt auglýsingum úr umferð eða breytt en öðrum verður fylgst með náið áfram.

Þá eru fjölskyldur sem auglýsa eftir sjálfboðaliðum hvattar til að hafa samband við stéttarfélagið á sínu svæði til að meta það í sameiningu hvort um ólöglegt athæfi er að ræða.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.