Breiðdalssetur eina safnið á Austurlandi sem tekur þátt: Íslenski safnadagurinn er á sunnudag

bdalsvik hh1Breiðdalssetur er eina safnið á Austurlandi sem verður opið og tekur þátt í íslenska safnadeginum sem verður á sunnudaginn.

Íslenski safnadagurinn, sem venjulega hefur verið í júlí, er haldinn með það að markmiði að vekja athygli á faglegu innra starfi safna á Íslandi. Í ár var ákveðið að færa daginn framar, til þess hann væri nær alþjóðlega safnadeginum, sem haldinn er 18. maí ár hvert, af International Council of Museums (ICOM).


Söfnin í Fjarðabyggð opna ekki fyrr en um mánaðamót

Athygli vekur að Breiðdalssetur er eina safnið á Austurlandi sem verður opið á sunnudaginn. Pétur Sörensson, forstöðumaður Safnastofnunnar, sagði í samtali við Austurfrétt að þessi tími væri helgaður undirbúningi og breytingum innan safnanna og ekki hafi staðið til að hafa þau opin fyrr en 1. júní.

„Söfn út á landi opna almennt ekki fyrr en um mánaðamótin, þó svo annað gildi um höfuðborgarsvæðið. Miðað hefur verið við ferðamannstrauminn, fólk er almennt ekki farið í frí á þessum tíma," segir Pétur en bætir því við að erlendir ferðamenn séu þó orðnir fyrr á ferðinni og lengi einnig tímann í hina áttina. „Við erum að undirbúa sumarið í okkar söfnum, breyta, bæta og setja upp sýingar, en tökum þó alltaf á móti hópm ef slíkar beiðnir berast.

Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum er lokað vegna breytinga í sýningarsal Safnahússins.


Deginum flýtt til að vera í samhengi við alþjóðlega safnadaginn

Elísabet Pétursdóttir, verkefnastjóri Félags íslenskra safna og safnamanna (FÍSOS) segir það að halda íslenska safnadaginn í samhengi við alþjóðlega safnadaginn, sé viðbragð við breyttu starfsumhverfi safna og gefi aukin tækifæri til að vinna markvisst að því að efla faglegt safnastarf með ákveðið alþjóðlegt þema að leiðarljósi hverju sinni.


Þrjár sýningar á Breiðdalssetri

Opið verður á Breiðdalssetri sem staðsett er í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík í tilefni íslenska safnadagsins. Arna Silja Jóhannsdóttir, starfsmaður Breiðdalsseturs, segir að safnið verði ekki opnað formlega fyrr en 20. maí, en ákveðið hafi verið að hafa safnið opið á sunnudag í tilefni íslenska safnadagsins.

„Það verða þrjár sýingar í gangi hjá okkur – jarðfræðisýning, þar sem fjallað er um ákveðna staði á Austurlandi og jarðfræðinga kringum þá, ljósmyndasýning þar sem saman eru gamlar myndir frá Breiðdalsvík og nýjar myndir, teknar á nákvæmlega sama stað með sama sjónarhorni. Svo er lítil steinasýning á annarri hæðinni sem sýnir allar steinategundir sem finna má í fjórðungnum. Við bjóðum alla velkomna á sunnudaginn, opið er frá 11:00-19:00 og það verður heitt á könnunni og kleinur með." 



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.