„Hvað ertu? Maður eða kona?“

Veiga Grétarsdóttir segir aðgerðina sem hún mun gangast undir í september verða til þess að loka löngu og ströngu kynleiðréttingarferli sínu.



„Ég byrjaði að taka hormóna fyrir rúmu ári síðan. Þeir hafa áhrif á nánast allt, hárið fór að koma aftur, það er meiri fylling í andlitinu og vöðvarnir rýrna svo eitthvað sé nefnt. Þeir sem þekkja mig segja að ég sé rólegri en áður en læknarnir segja það eðlilegan fylgifisk þar sem testósterónið lækki í líkamanum.

Ég er líka orðin miklu tilfinninganæmari, er viðkvæmari á ákveðnum tíma mánaðarins en öðrum, þannig að ég upplifi tíðahringinn að ákveðnu leiti. Það eru líka margir hlutir sem mér þóttu algert kjaftæði áður en þykja alveg nauðsynlegir í dag, ég er til dæmis ekki sátt ef ég get ekki straujað rúmfötin mín í dag en ég var nú alveg nógu mikil kerling fyrir.“


Sársaukafullar leisermeðferðir

Hormónameðferðin stöðvar ekki skeggvöxt eða mýkir röddina.

„Ég var í leisermeðferðum á sex vikna fresti í eitt og hálft ár til þess að drepa niður skeggvöxt. Það er það viðbjóðslegasta sem til er, svona á pari við að láta bora í tönn án deyfingar. Einnig hef ég verið hjá talþjálfara þar sem ég fæ æfingar sem miða að því að mýkja röddina en það kostar margra tíma vinnu á dag ef góður árangur á að nást. Karlmannlega röddin böggar mig að vissu leyti en þegar ég hringi til dæmis á opinberar stofnanir og kynni mig sem Veigu Grétarsdóttur er samt alltaf sagt „sæll“ við mig á móti. Krakkar spyrja stundum: „Hvað ertu? Ertu maður eða kona?“ Ég spyr þau þá á móti hvað þau sjá. Þá segjast þau sjá konu en heyra í karlmanni, það er svolítið minn veruleiki.

Veiga fór í brjóstauppbyggingu í nóvember á síðasta ári. „Það var mjög stórt skref að fara í sílikon. Þetta er mikil aðgerð en brjóstvöðvarnir eru rifnir frá til þess að koma púðunum fyrir. Ég kveið ekkert fyrir því, hlakkaði bara til. Ég var ekki búin að opna augun eftir svæfinguna þegar ég greip um brjóstin á mér og hugsaði: „Jess, loksins mín eigin,“ þó svo þau séu það kannski ekki alveg.“


"Maður verður að hafa húmor fyrir þessu"

Stóra aðgerðin er svo á áætlun í september en Veiga segir að hún muni loka þessu langa og stranga ferli.

„Ég fer í tvær til þrjár aðgerðir sem framkvæmdar eru á Landspítalanum. Í fyrstu aðgerðinni er allt skorið sundur og tengt saman aftur en kóngurinn er notaður í sníp, húðin á pungnum í barma, húðin á limnum í leggöng og eistunum hent. Það er ákveðin hætta á því að þetta heppnist ekki fullkomlega og ég missi tilfinningar en það er ekki algengt. Þó svo ég hlakki til þá drullukvíð ég fyrir en ég má búa mig undir að vera hátt í tvo mánuði að jafna mig.

Þessar aðgerðir eru alltaf gerðar á haustin og við grínumst stundum með það, stelpurnar sem eru í sömu stöðu og ég, að við séum að fara að taka slátur, en maður verður að hafa húmor fyrir þessu líka.

Ég hef verið óþolinmóð að bíða eftir aðgerðinni en fólk hefur verið duglegt að benda mér á að þetta hafi þó tekið stuttan tíma, en það er aðeins ár síðan ég opinberaði mig sem konu á Facebook, þó svo að fjölskylda og vinir hafi vitað það fyrr. Aðgerðin mun loka ferlinu fyrir mér en í dag upplifi ég mig svolítið eins og ég sé í einskismannslandi, tilheyri hvorki konum né körlum. Það verður til dæmis gott að geta farið í sund án þess að byrja á því að fara inn á klósett og pakka slátrinu inn áður en ég fer í sundbolinn.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Austurglugganum sem kom út síðstliðinn föstudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.