Óli Bragi heimsmeistari í torfæru: Leggst sáttur á koddann í kvöld

oli bragi heimsmeistari webEgilsstaðabúinn Ólafur Bragi Jónsson varð í dag heimsmeistari í torfæruakstri en keppnin fór fram í Noregi. Hann segir árangurinn hvað mest aðstoðarmönnunum að þakka.

„Það er mjög sætt að vera heimsmeistari. Það verður ekki leiðinlegt að leggjast á koddann í kvöld og fara sáttur að sofa,“ sagði Ólafur Bragi þegar Austurfrétt náði tali af honum í kvöld.

Keppnin byrjaði þó ekki vel í gær. „Ég var níundi eftir fyrstu þrjár þrautirnar. Ég velti, var dæmdur úr þraut í annarri braut og í þeirri þriðju höfðu starfsmennirnir skrúfað fyrir nítrókútinn án þess að segja mér frá því og bíllinn var því kraftlaus.“

Eftir þetta lá leiðin upp á við. Eftir þrautirnar átta í gær var Ólafur Bragi kominn í annað sætið. Eftir þriðju þraut í dag komst hann fram úr Arne Johansen frá Noregi. Það var forusta sem Ólafur Bragi lét ekki af hendi þær þrjár brautir sem eftir voru og fékk að lokum rúm 4000, ríflega 100 fleiri en Norðmaðurinn.

Keppnin ber heitið NEZ Championship en er í raun heimsmeistarakeppnin í torfæruakstri þar sem íþróttin er nær eingöngu stunduð í Evrópu, einkum norðanverðri álfunni.

Keppnin var haldin í Skien, um 2,5 tíma leið suðvestur af Osló. Fjöldi fólks fylgdist með keppninni, um 4-5000, hvorn dag. Þá hafa gengið myndir af Ólafi Braga að skrifa eiginhandaráritun fyrir unga aðdáendur. „Það er mikill áhugi á keppninni. Hér skrifar maður eiginhandaráritanir fyrir allan peninginn,“ segir hann kátur.

Ólafur Bragi hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari í torfæruakstri í flokki sérútbúinna bíla. Hann segir þrautirnar í Noregi hafa verið fremur einfaldar.

„Ég skoðaði brautirnar í morgun og fannst lítið lagt í þær. Þær voru ekki tæknilega erfiðar og það var ein braut sem skildi á milli í dag og hana náði ég að keyra rétt.“

Ólafur er síður en svo einn. Með honum kom sex manna fylgdarlið frá Íslandi og tveir bættust við í Noregi. Hann segist þakklátur fyrir aðstoðina þrátt fyrir mistökin í þriðju þrautinni.

„Ég á aðstoðarmönnunum hvað mest að þakka. Ég hefði ekki unnið án þeirra.“

Mynd: Ólafur Bragi, annar frá hægri, ásamt aðstoðarmönnum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.