Íslandsmeistari í þrístökki: Rétt náði til leiks eftir tafir á flugi

Mikael Máni Freysson úr Umf. Þristi varð um síðustu helgi Íslandsmeistari í þrístökki í flokki 18-19 ára pilta. Máni vann til tvennra annarra verðlauna en þau stóðu tæpt vegna mikilla tafa sem urðu á flugi.


„Það var smá stress. Fluginu á föstudag var aflýst og fluginu á laugardagsmorgun var frestað um hálftíma,“ segir Máni.

UÍA var með fjóra keppendur skráða til leiks á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í Laugardalshöll. Þeim átti þjálfarinn Lovísa Hreinsdóttir að fylgja. Í vélinni á laugardagsmorguninn voru hins vegar bara þrjú sæti laus. Helga Jóna Svansdóttir og Steingrímur Örn Jóhannsson, sem bæði hafa glímt við meiðsli, hættu við að fara til að Máni, Lovísa og Daði Þór Jóhannsson kæmust.

„Við lentum á sama tíma og hástökkið átti að byrja og keyrðum beint í höllina. Keppnin var hafin og búið að hækka um fjórar hæðir. Ég hitaði ekkert upp, fór bara beint í keppnina. Ég komst yfir 1,77 í þriðju tilraun. Það var nóg í bronsið.“

Síðar um daginn varð Máni Íslandsmeistari í þrístökki með stökki upp á 12,49. „Þrístökkið er ein af mínum betri greinum og ég var skráður með besta árangurinn af þeim sem kepptu þannig ég bjóst alveg eins við að vinna. Ég náði ekki að bæta minn besta árangur en var nálægt því.“ Máni hefur fimm sinnum áður unnið Íslandsmeistaratitil í frjálsum, þar af þrisvar sinnum í þrístökki.

Daði Þór keppti einnig í þeirri grein en í flokki 16-17 ára. Hann varð þriðji með stökki upp á 12,12 metra. Á sunnudag vann Máni silfur í langstökki en hann stökk 6,21 metra. Þar náði hann ekki nema einu stökki áður en hann þurfti að fara í flug heim. Vegna ófærðar í borginni var keppninni seinkað um tvo tíma. Þjálfarinn beið fyrir utan höllina með bílinn tilbúinn á meðan Máni stökk.

Keppnistímabilinu innanhúss er þar með að ljúka en næst á dagskrá Mána er undirbúningstímabil fyrir sumarið en stærstu mótin þar verða Meistaramót Íslands 15-22 ára og fullorðinna.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.