Í fótspor Walkers í Breiðdalssetri
Laugardaginn 30. ágúst hélt Breiðdalssetur málþingið „Í fótspor Walkers" í minningu og til heiðurs Georg Walker jarðfræðingi, sem var heimsfrægur vísindamaður og m.a. frumkvöðull í rannsóknum á jarðfræði Austurlands. Rannsóknir hans hér eystra hófust 1954 og stóðu fram á miðjan sjöunda áratuginn. Stór hluti arfleifðar hans er varðveittur í Breiðdalssetri og er það starfseminni ómetanlegt.Verkefni Breiðdalsseturs, sem hefur aðsetur í Gamla kaupfélaginu, elsta húsinu á Breiðdalsvík, það var byggt 1906, eru einkum þríþætt.
Í fyrsta lagi að gera jarðfræði Austurlands aðgengilega, ekki síst með tilvísun til rannsókna breska jarðfræðingsins dr. George P.L. Walker.
Í öðru lagi að varpa ljósi á ævi og störf dr. Stefáns Einarssonar málvísindamanns og rithöfundar frá Höskuldsstöðum í Breiðdal og stuðla að verndun og vegsemd íslenskrar tungu.
Og loks er markmið að kynna sögu hússins, þorpsins og byggðarlagsins alls.
Að þessu sinni var stofnað til málþings um jarðfræði og Christu Mariu Feucht forstöðukonu Breiðdalsseturs og öðrum starfsmönnum setursins tókst að fá fjölda vísindamanna á sviði jarðfræði og náttúruvísinda til að miðla af þekkingu sinni og rannsóknum, og er það ekki lítið afrek enda hefur undirbúningur staðið lengi.
Daginn áður en málþingið fór fram hófst lítið eldgos í Holuhrauni norðan Vatnajökuls, sem varð til þess að þrír fyrirlesaranna forfölluðust, þar sem þeir þurftu að sinna skyldustörfum, en Christu tókst að fá tvo nýja fyrirlesara, með eins dags fyrirvara, sem telja verður afrek. Bæði fluttu þau mjög áhugaverð erindi, annars vegar um Norðfjarðargöng og hins vegar um rannsóknir á hafsbotni með tilliti til olíuleitar.
Málþingið stóð allan daginn, hófst stundvíslega kl 9 og lauk ekki fyrr en á sjötta tímanum. Um 50 gestir víða að af Austurlandi sátu málþingið og héldu flestir út allt til loka, enda erindin öll svo áhugaverð.
Rannsóknir Walkers nýtast í jarðgangagerð í dag
Fyrstur fyrirlesara var Hjörleifur Guttormsson, hann fjallaði á skýran og greinargóðan hátt, eins og honum einum er lagið, um George Walker og jarðfræði Austurlands. Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur fór yfir jarðhitaleit á Austurlandi, sem hann hefur fengist við í meira en 20 ár, og áhugavert var að sjá hvað rannsóknir hans hafa þegar skilað miklum árangri, m.a. eru komnar hitaveitur á stöðum eins og Egilsstöðum og Eskifirði og frekari jarðhitaleit lofar víða góðu.
Næsta erindi hélt Christa Feucht forstöðukona Breiðdalssetur um lífræn ummerki í kísilmyndunum í Breiðdal, stórskemmtilegt var að kynnast rannsóknum hennar, og lokaerindið fyrir hádegi flutti Birgir Jónsson jarðfræðingur um jarðfræði Norðfjarðarganga og væntanlegra ganga undir Fjarðarheiði.
Í erindi Birgis, sem var mjög áhugavert, kom fram að við Norðfjarðargöng sem og Fáskrúðsfjarðargöng eru rannsóknir George Walker frá því fyrir 50 árum notaðar og hafa reynst afar gagnlegar. Ótrúleg tækni hefur þróast hér við gerð jarðganga og verktakar öðlast mikla reynslu og jafnvel komið fram með merkar nýjungar, sem erlend fyrirtæki á þessu sviði eru farin að nýta sér.
Kynntu bók um jarðfræði Austurlands
Eftir hádegi fjallaði fyrirlestur Anett Bliscke um afar merkar rannsóknir á hafsbotni Norður Atlantshafsins, einkum með tilliti til olíuleitar, rannsóknirnar beinast fyrst og fremst að Jan Mayen hrygg. Anett er helsti sérfræðingur okkar á þessu sviði og starfar hjá Íslensku Orkurannsóknum.
Eftir fróðlegar umræður um rannsóknir Anett, sem sagðist fara varlega í að álykta um olíu á Drekasvæðinu og annars staðar, ræddu Martin Gasser og Sigurður Max Jónsson starfsmenn Breiðdalsseturs um væntanlega bók um jarðfræði Austurlands, sem væntanleg er næsta vor.
Forsmekkinn af þessu áhugaverða verkefni er hægt að fá á nýrri sýningu í Breiðdalssetri, sem fjallar um sama efni og eru Austfirðingar hér með hvattir til að gefa sér tíma til að koma og skoða þessa áhugaverðu sýningu, í setrinu er einnig skemmtileg sýning um Breiðdalsvík fyrr og nú.
Þrír jarðfræðinemar frá Cambridge, sem hér hafa verið í sumar og hafa notið fyrirgreiðslu og leiðsagnar Breiðdalsseturs fóru yfir áhugaverðar rannsóknir sínar í Breiðdal og nágrenni.
Lúðvík Gústafsson sagði næst frá stórmerkum rannsóknum sínum á megineldstöðvum í Borgarfirði eystra og Loðmundarfirði, þarna hefur Lúðvík unnið þrekvirki og er þetta framlag hans til jarðfræðirannsókna á Íslandi glæsilegt.
Stórgos í Breiðuvík
Í lokin fluttu tveir ungir jarðvísindamenn erindi um rannsóknir sínar, Erla Dóra Vogler sagði frá mastersverkefni sínu um berggrunn Breiðuvíkur í áhugaverðu erindi og lokaerindið flutti Birgir Óskarsson jarðfræðingur og sagði frá doktorsverkefni sínu sem fjallar um tegund og uppbyggingu íslenskra hraunsyrpna á síðtertíer, hann fór yfir gostíðni, flæðiferli hrauna og umhverfisaðstæður.
Ljóst er að eldgosin á þessu skeiði fyrir u.þ.b. 3 til 5 milljónum ára hafa verið ótrúlega stór, sum meira en tíföld stærð gossins í Lakagígum, en í Skaftáreldum varð þó mesta hraunrennsli í einu gosi á jörðinni á síðasta árþúsundi. Þetta erindi var afar fróðlegt og áhugavert. Birgir sýndi á myndum hvernig hraunlögin hafa runnið hvert af öðru og myndað sum fjöllin sem við horfum á dags daglega.
Á sunnudeginum var svo farið í dagsferð um Berufjörð og Breiðdal sem jarðfræðingar Breiðdalsseturs höfðu undirbúið og var stoppað víða og farið yfir jarðfræði svæðisins.
Fyrir hönd Breiðdalsseturs þakka ég öllum gestum okkar, sem sátu málþingið flestir í heilan dag, þar er starfseminni mikilvægt að finna að hún á hljómgrunn meðal íbúa á Austurlandi. Við stefnum að nýjum sýningum og málstofum á næsta ári og vonumst til að sjá ykkur sem flest þar.