Málþing í Breiðdalssetri

gamla kaupfelagid bdalsvik hihSíðastliðinn laugardag hélt Breiðdalssetur málþing um íslenskt mál og málnotkun með sérstöku tilliti til austfirsku. Málþingið var í minningu prófessors Stefáns Einarssonar frá Höskuldsstöðum í Breiðdal.

Þrítugur að aldri árið 1927 fékk Stefán prófessorstöðu við Johns Hopkins-háskóla í Baltimore og starfaði þar nánast alla sína starfsæfi. Hann var þar kennari í norrænni og fornenskri málfræði, og síðar einnig í Norðurlandabókmenntum. Þegar Stefán lét af störfum fluttist hann til Íslands og bjó í Reykjavík til dauðadags, 9. apríl 1972 en er jarðsettur í heimagrafreit á Höskuldsstöðum.

Stefán var afkastamikill fræðimaður, hann var frumkvöðull hér á landi að rannsóknum á íslenskri hljóðfræði og skrifaði um mismunandi framburð eftir landshlutum. Hann safnaði örnefnum víða á Austurlandi fyrstur manna og skrifaði greinar um ýmis þeirra.

Þegar ég var barn í Hornafirði er mér minnisstætt þegar Stefán kom í Borgir og var þá að safna örnefnum. Skírnir móðurbróðir minn var heilan dag með Stefáni, sem skráði niður það sem lýst var og hreifst Skírnir mjög af Stefáni. Á laugardaginn var ég upplýstur um að þetta var sumarið 1961, þegar ég var 10 ára!

Fyrir tveimur árum hélt Breiðdalssetur málþing um Stefán Einarsson þegar opnuð var sýning um ævi og störf Stefáns í gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík.

Líta má á málþingið sl. laugardag sem framhald á umfjöllun um rannsóknir þess merka manns sem Stefán Einarsson var. Og fyrirlesararnir voru ekki af verri endanum, auk Vésteins Ólasonar voru þarna sjö af helstu fræðimönnum landsins á sviði málfræði, örnefna og hljóðfræði, flestir prófessorar og kennarar við Háskóla Íslands.

Fyrirlestrarnir voru allir fræðandi, byggðir á rannsóknum viðkomandi fræðimanna og umfram allt skemmtilegir og þannig fram settir að þeir voru skiljanlegir almenningi, þótt sérfræðiþekking væri ekki fyrir hendi. Hægt er að lesa stutta úrdrætti úr fyrirlestrunum á heimasíðu Breiðdalsseturs.

Það er mikill fengur fyrir Breiðdalssetur og þar með Breiðdælinga að í stjórn setursins sé afburða fræðimaður eins og Vésteinn Ólason, sem er ættaður úr Breiðdal, ég tel augljóst að það sé hans verk að koma á margnefndu málþingi. Vésteinn er fv. prófessor við HÍ og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Ég vona sannarlega að framhald verði á uppbyggingu Breiðdalsseturs og þá vil ég skora á Breiðdælinga og aðra Austfirðinga að koma og hlusta og njóta.

Málþingið var allvel sótt, þó saknaði ég þess hve fáir Breiðdælingar mættu, til að starfsemi Breiðdalsseturs og Gamla kaupfélagsins verði með blóma er lífsspursmál að Breiðdælingar standi saman um starfsemina og það merka menningarstarf sem þarna fer fram.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.