Félagar í Oddfellow styrktu tækjakaup um 25 milljónir króna

Oddfellow-stúkurnar á Austurlandi, Björk og Hrafnkell Freysgoði gáfu nýverið 25 milljónir króna til tækjakaupa til Slökkviliðs Múlaþings, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Egilsstaðakirkju úr styrktar- og líknarsjóði Oddwellow á Íslandi.

Í fyrsta lagi styrktu stúkurnar kaup Egilsstaðakirkju á búnaði til að streyma frá útförum. Fulltrúar kirkjunnar, Þorgeir Arason sóknarprestur og Eydís Bjarnadóttir, formaður sóknarnefndar, sögðu að í dag væri mikil krafa um útsendingar frá jarðarförum. Þær nýttust ekki síst öldruðum og sjúkum sem kæmust ella ekki á staðinn.

Slökkvilið Múlaþings var styrkt til að kaupa fjóra eiturefnagalla, 20 gróðureldagalla og laufblásara með vatnsúðara. Með þessu eflist mjög búnaður liðsins sem notaður er til að takast á við gróðurelda. „Það er með þessi tæki eins og önnur sem við kaupum að við vonumst til að þurfa aldrei að nota þau,“ sagði Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri.

Rannsóknartæki auka þægindi sjúklinga


Hæstu upphæðirnar fékk HSA til kaupa á búnaði sem fer á nokkrar starfsstöðvar. Á Umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað fer til að mynda Filmarry-rannsóknartæki og nýr þráðlaus hjartasíriti.

„Með rannsóknartækinu getum við greint veirur og bakteríur strax innan klukkustundar í stað þess að þurfa að senda sýnin annað og fá niðurstöður eftir nokkra daga. Það reyndi meðal annars á þetta í Covid-faraldrinum.

Með hjartasíritanum þarf sjúklingur ekki lengur að vera lengur rúmliggjandi meðan fylgst með honum. Að geta gengið um er ekki bara mikilvægt fyrir batann heldur líka til að sjá hvernig hjartað bregst við álagi,“ útskýrði Guðjón Hauksson, forstjóri HSA.

Af öðrum tækjum má nefna skoðunarstóla, sem fara á fleiri en eina starfsstöð, skilvindu sem nýtist í rannsókn á blóði og verður í Fjarðabyggð, bættan búnað í líkgeymsluna á Egilsstöðum og loks hjartasírita á Djúpavog. „Með honum er hægt að rannsaka hjartavöðvann í allt að sólarhring meðan viðkomandi heldur áfram sínu daglega lífi. Áður þurfti fólk að fara í slíkar rannsóknir á Reyðarfirði eða Egilsstöðum.“

Sýna mikilvægi heilbrigðisþjónustu


Guðjón sagði HSA þakklátt fyrir rausnarlegar gjafirnar en líka finna fyrir ábyrgð. „Jafn rausnarlegar gjafir og þessar sýna hversu mikilvæg heilbrigðisþjónusta er okkar samfélagi. Þær eru um leið hvatning til okkar að halda áfram uppbyggingu,“ sagði hann.

Fyrsta Oddfellow stúkan á Íslandi var stofnuð árið 1897 en austfirsku stúkurnar tvær voru stofnaðar árið 2010. Í þeim eru um 110 félagar í dag, örlítið fleiri karlar en konur, eða öllu heldur ögn fleiri bræður en systur, sem eru þau hugtök sem notuð eru innan hreyfingarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.