Skip to main content

Hvort hampar Leiknir eða Höttur deildarmeistaratitlinum?

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. sep 2014 10:59Uppfært 12. sep 2014 11:00

leiknir kff fotbolti 14092013 0164 webAnnað hvort Höttur eða Leiknir mun hampa deildarmeistaratitlinum í þriðju deild karla í knattspyrnu á morgun á sama tíma og örlög Einherja í deildinni ráðast. Fjarðabyggð tekur á móti deildarmeistaratitli annarrar deildar.


Höttur náði toppsætinu um síðustu helgi af Leiknismönnum sem hafa hangið á því stóran hluta sumarsins. Fáskrúðsfirðingum hefur hins vegar aðeins fatast flugið að undanförnu, meðal annars eftir að þeirra helsti markaskorari, Kristófer Páll Viðarsson, meiddist.

Hattarmenn lentu í ókyrrð á miðri leið í sumar en hafa unnið alla sína leiki frá því Gunnlaugur Guðjónsson tók við liðinu um miðjan júní.

Leiknismenn taka á móti Magna á Búðagrund á morgun en Hattarmenn heimsækja ÍH í Hafnarfirði.

Hattarleikurinn gæti haft áhrif á örlög Einherja sem er í þriðja neðsta sæti, stigi meira en ÍH. Einherjamenn fara suður og mæta liðinu í þriðja sæti, Berserkjum. Auk stigsins er Einherji með sjö mörk umfram ÍH í markahlutfall þannig að ólíklegt er að ÍH dugi jafntefli gegn Hetti nema tilkomi stórtap Einherja.

Fjarðabyggð tekur á móti deildarmeistaratitlinum í annarri deild að loknum leik liðsins gegn Sindra á Norðfjarðarvelli á morgun. Liðið hefur átt frábært tímabil, aðeins tapaði einum leik og er með níu stiga forskot á toppi deildarinnar.

Huginn heimsækir Völsung á Húsavík. Seyðfirðingar eiga enn langsótta möguleika á að fylgja Fjarðabyggð upp um deild tapi Grótta og ÍR báðum leikjunum sem liðin eiga eftir.

Allir leikirnir hefjast klukkan 14:00.