Það þarf vilja til breytinga

Björn Valur Gíslason skrifar:   Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra er nú í samvinnu við ÁTVR að leggja lokahönd á breytingar á reglum áfengissölunnar um móttöku og dreifingu til þess að jafna aðstöðu framleiðenda á landsbyggðinni við að koma vöru sinni á markað.

bjrn_valur_gslason.jpg

Breytingarnar fela það m.a. í sér að ÁTVR getur samið beint við birgja um afhendingu á vöru sem dreifa á um nærsvæði framleiðenda á öðrum stöðum en í Reykjavík. Þetta mun m.a. leiða af sér að vínframleiðendur líkt og Vífilfell á Akureyri og Bruggsmiðjan á Árskógsströnd gætu afhent vörur sínar beint í verslanir ÁTVR á Akureyri, Dalvík, Siglufirði, Blönduósi, Húsavík, Vopnafirði, Egilsstöðum Seyðisfirði eða öðrum stöðum á norður og austurlandi í stað þess að þurfa að keyra þær langar leiðir í vöruhús ÁTVR  í Reykjavík eins og þurft hefur hingað til.

Hér er um afar brýnt mál að ræða fyrir þessi fyrirtæki og dregur mjög úr kostnaði þeirra við að koma vöru sinni á markað. Málflutningur þeirra fékk ekki fengið hljómgrunn hjá fyrri ríkisstjórnum og stjórnarþingmenn þeirra studdu ekki málflutning þessara fyrirtækja á Alþingi.

Kristján Þór Júlíusson er einn þeirra sem ekki hefur viljað ljá þessu máli stuðning sinn fyrr en núna þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu. Þá bar svo við að hann rauk loksins til og lagði fram þingsályktunartillögu um að jafna stöðu fyrirtækja á landsbyggðinni hvað þetta varðar. Það var frekar seint í rassinn gripið hjá þingmanninum því þá þegar var verið að vinna að breytingum á þessum reglum sem nú hafa tekið gildi eins og þingmanninum átti að vera kunnugt um. Orðagjálfur og innantóm loforð eru hinsvegar sjaldan mikils virði. Í þessu máli sem fleirum er það oftast viljinn til verka sem þarf til að hreyfa við málum.

 

 

Björn Valur Gíslason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.