Orkumálinn 2024

Á grænni grein – valdefling nemenda

Þegar skólar draga grænfána að húni má lesa ánægju og stolt í augum nemenda og það með réttu. Fagnað er mikilvægu starfi þar sem nemendur og kennarar hafa leitt skólann í átt að aukinni sjálfbærni. Margir þekkja til grænfánans en ekki allir gera sér grein fyrir þeirri vinnu sem liggur að baki og hversu þýðingarmikið menntaverkefni þetta er bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi.

Grænfáninn blaktir víða

Verkefnið er í daglegu tali oft nefnt grænfánaverkefnið en heitir Skólar á grænni grein hérlendis og Eco-Schools á alþjóðlegum vettvangi. Það er útbreiddasta menntaverkefni sinnar tegundar í heiminum og er haldið úti af alþjóðlegu samtökunum Foundation for Environmental Education (FEE). Þeir 200 íslensku skólar af öllum skólastigum sem taka þátt í verkefninu hérlendis eru því hluti af stórri alþjóðlegri hreyfingu þar sem um 59 þúsund skólar í 68 löndum taka þátt. Á Austurlandi taka í dag 16 leik-, grunn- og framhaldsskólar þátt í verkefninu og vinna mikilvægt og öflugt starf sem tekið er eftir.

Virkni nemenda mikilvæg

Hérlendis er verkefnið rekið af umhverfisverndarsamtökunum Landvernd sem veitir bæði aðstoð og eftirlit með starfsemi skólanna og miðlar af mikilli þekkingu og reynslu um verkefni, kennsluefni og kennsluaðferðir til þátttökuskóla. Skólar í verkefninu þurfa að ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Nemendur leika aðalhlutverk í þessari vinnu. Á hverju tímabili meta nemendur stöðu umhverfismála í skólanum, velja sér ákveðin þemu til að vinna með, setja sér markmið og sjá til þess að unnið sé eftir henni.

Mikilvægt er að þessi vinna fléttist inn í skólastarfið hjá öllum nemendum og starfsmönnum og nái einnig til nærsamfélags. Þannig er t.d. unnið að því að minnka notkun og sóun á rafmagni og pappír, minnka matarsóun, halda fatamarkað, minnka vistspor, efla þekkingu og áhuga á nærumhverfinu, unnið er í náttúruverndarverkefnum, að lýðheilsu og ótal margt fleira.

Hluti af þessum verkefnum er sérstaklega að auka þekkingu nemenda á samhengi þessara mála við loftslagsmálin, hnattrænar tengingar, sjálfbæra þróun og að efla hæfni og getu þeirra til að skapa sanngjarnari og friðsælli samfélög á grunni sjálfbæra þróunar. Verkefnið er því mikilvægt tæki til að undirbúa kynslóðina sem er að vaxa úr grasi fyrir áskoranir nútíðar og framtíðar, stuðla að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og vinna að grunnþáttum menntunar í aðalnámskrá.

Stuðningur við kennara

Sameinuðu þjóðirnar gefa þjóðum heims skýr tilmæli um að flétta menntun til sjálfbærni inn í námskrá menntastofnana. Íslenska menntakerfið hefur fylgt því eftir, sérstaklega með grunnþáttum menntunar þar sem sjálfbærni er einn hinna sex þátta. Niðurstöður úr ýmsum rannsóknum gefa til kynna að oft vantar kennara meiri stuðning til að fylgja eftir ákvæðum um menntun til sjálfbærni. Kennarar kalla eftir markvissri og faglegri aðstoð og stuðningi, tíma og svigrúmi til að auka eigin þekkingu og hæfni auk verkefna og kennsluefni til að vinna með nemendum.

Verkefnið Skólar á grænni grein mætir þessum óskum kennara. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum eru Skólar á grænni grein helsta innleiðingartæki menntunar til sjálfbærni í heiminum í dag. Slík viðurkenning er stórt klapp á bakið fyrir þá skóla sem eru nú þegar þátttakendur. Og það er hvetjandi fyrir aðra skóla að byrja þessa mikilvæga vegferð og verða hluti af alþjóðlegri hreyfingu sem hefur það að markmiði að valdefla ungu kynslóðina til að finna sína eigin rödd og verða virkir þátttakendur í nauðsynlegum umbreytingum á samfélagi okkar í átt að sjálfbærri þróun.

Höfundur er sérfræðingur hjá Skólum á grænni grein hjá Landvernd á Egilsstöðum

Verkmenntaskóli Austurlands fékk s.l. haust annan Grænfána afhentan. Hér taka Alexandra Ýr Ingvarsdóttir, nemandi í umhverfisnefnd, og Gerður Guðmundsdóttir, kennari og formaður umhverfisnefndar við Grænfánanum fyrir hönd skólans. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.