Að bóka eða bóka ekki

Sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins hafa lengi lagt áherslu á mikilvægi þess að fleiri opinber störf verði flutt út á landsbyggðina. Því var ánægjulegt þegar Matvælastofnun auglýsti nýlega eftir að ráða háskólamenntaðan starfsmann, með sérþekkingu á fiskeldi, í 100% starf sérfræðings með aðsetur á starfsstöð Matvælastofnunar á Egilsstöðum.

Matvælastofnun til hróss hefur hún gengið á undan með góðu fordæmi að undanförnu og auglýst fleiri störf meðal annars á Vestfjörðum og Sauðárkróki. Vel gert.

Af þessu tilefni þótti bæjarráði Fjarðabyggðar við hæfi að bóka eftirfarandi: „Bæjarráð Fjarðabyggðar mótmælir fyrirhugaðri staðsetningu starfsstöðvar fiskeldissérfræðings Matvælastofnunnar (MAST) á Austurlandi en fyrirhugað er að aðsetur starfseminnar verði á Egilsstöðum. Þykir það skjóta skökku við að starfsmaður sem eigi m.a. skv. atvinnuauglýsingu MAST, að sinna eftirliti með búnaði og rekstri fiskeldisstöðva, eftirliti með matvælafyrirtækjum í fiskeldi, bátaskoðunum og eftirliti með aflameðferð skuli hafa aðsetur svo fjarri allri starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna.“

Byggðaráð Múlaþings hefði getað brugðist ókvæða við þessari bókun. Það hefði til dæmis getað bent á ósamræmið sem í því felst að bóka með þessum hætti en leggja í hinu orðinu áherslu á mikilvægi þess að Austurland verði eitt atvinnusvæði og að áherslur Fjarðabyggðar í samgöngumálum í gegnum árin hafi löngum tekið mið af því.

Það hefði líka getað bent á að í Berufirði er rekið öflugt fiskeldi og að áform séu uppi um eldi í Seyðisfirði. Einnig hefði verið hægt að vekja athygli á því að öll slátrun á laxi fer nú fram á Djúpavogi, umfangsmikið seiðaeldi sé fyrirhugað á Kópaskeri og að Egilsstaðir liggi tiltölulega miðsvæðis við öllum þessum stöðum - Reyðarfirði líka.

Það hefði jafnvel verið hægt að ganga svo langt að saka bæjarráð Fjarðabyggðar um heimóttarskap í ljósi þess að tæplega hálftíma akstur er niður á Reyðarfjörð frá starfsstöð MAST á Egilsstöðum. Líka hefði verið hægt að benda á áskorunina sem í því felst að reka starfsstöðvar með einum starfsmanni í stað þess að mynda sterkari kjarna þar sem starfsmenn hafa stuðning hver af öðrum líkt og forstjóri Mast hefur bent á. Ekkert af þessu hefur byggðaráð Múlaþings látið bóka.

Undirritaður vill hins vegar af þessu tilefni minna á að árangur í stærstu hagsmunamálum íbúa á Austurlandi til dæmis í samgöngu- og atvinnumálum undanfarin ár hafa náðst með samstöðu og samstarfi. Umrædd bókun er köld kveðja til nýrra nágranna en vonandi sett fram í fljótfærni og ekki til marks um það sem koma skal. Þetta er orðið gott. Leggjumst öll á eitt og byggjum upp öflugt Austurland.

Forseti sveitarstjórnar Múlaþings


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.