Að byggja Róm – skipulagsmál í Múlaþingi
Þegar sveitarfélögin fjögur, sem nú mynda Múlaþing, ákváðu að hefja sameiningarviðræður var það ekki síst vegna þess að samstarf þeirra í fjölmörgum málaflokkum hafði gefið góða raun. Má þar nefna félags- og barnaverndarmál, brunavarnir, ákveðin verkefni í skólamálum og svo mætti áfram telja.Þetta var ekki raunin hvað varðar skipulags- og framkvæmdamál en öll áttu sveitarfélögin þó sameiginlegt að framkvæmd þessa málaflokks hafði reynst þeim heilmikil áskorun. Einn helsti kosturinn við að búa til nýtt og stærra sveitarfélag var að með því mætti efla verulega stjórnsýsluna á sviði skipulags-, umhverfis- og framkvæmdamála. Um það var talað í aðdraganda sameiningarinnar og á það lögðum við í Framsóknarflokknum áherslu fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Við vissum að það yrði heilmikið verk að vinna við að samþætta og efla starfsemina og kölluðum eftir því að mega hafa pólitíska forystu fyrir því verkefni.
Verkefnin hafa verið fjölmörg og starfsfólk hins nýja umhverfis- og framkvæmdasviðs, meira og minna nýtt fólk eða í nýjum hlutverkum, hefur staðið sig frábærlega miðað við hversu margvíslegar áskoranir hefur þurft að takast á við. Auk þess að móta nýtt svið nánast frá grunni og læra á nýtt starfsumhverfi þurfti að ná utan um og samræma skipulag og áherslur sem höfðu verið nokkuð ólíkar milli sveitarfélaganna fjögurra, forgangsraða verkefnum í skipulagsmálum í ljósi aukinnar ásóknar í byggingarlóðir, sinna daglegum störfum og afgreiðslu mála með skilvirkum hætti, leitast við að ná utan um töluverðan hala eldri mála sem ekki hafði tekist að ljúka í tíð forveranna. Ofan í kaupið þurfti síðan að glíma við afleiðingar meiriháttar náttúruhamfara.
Öll þessi vinna hefur gengið vonum framar. Breytingar á innra skipulagi, gerð verkferla og samantekt tölfræði til að bæta yfirsýn er vinna sem hefur ekki verið íbúum mjög sýnileg en við vitum að þetta mun, og hefur nú þegar, skilað sér í bættri þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Hér að neðan gerum við aðeins nánar grein fyrir stöðu mála í helstu málaflokkum.
Byggingar- og framkvæmdaleyfi
Það er óhætt að segja að við ákveðinn fortíðarvanda sé að etja á þessu sviði. Samantekin tölfræði fyrir árið 2021 sýnir okkur að samtals voru 191 byggingarleyfiserindi í vinnslu á árinu, þ.e. umsóknir sem bárust á árinu að viðbættum óloknum málum frá 2020. Af þeim voru 67 afgreidd og því 124 mál opin um áramót. Við þetta bætast síðan eldri óvirk mál sem eru 110 talsins. Það eru mál sem hefur ekki verið lokið og ekki er í forgangi að vinna með nema aðilar máls kalli sérstaklega eftir því, sem við hvetjum alla hiklaust til að gera. Annars er áhersla lögð á að vinna með og ljúka nýjum málum.
Uppsafnaður vandi af þessu tagi verður ekki leystur í einum vettvangi en við erum á réttri leið. Tekin var ákvörðun um að bæta við mannafla í verkefnið og hefur það þegar gefið góða raun svo að á yfirstandandi ári mun sannarlega grynnka verulega á stabbanum sem hlaðist hefur upp auk þess sem afgreiðsla nýrra erinda ætti að ganga snurðulaust fyrir sig. Góðu fréttirnar eru líka að þessi áskorun kemur til vegna þess að það er mikið um að vera og margir vilja byggja. Í fyrra voru gefin út byggingarleyfi fyrir 39 íbúðareiningar í sveitarfélaginu.
Aðal- og deiliskipulag
Frá því Múlaþing varð til hefur verið stefnt að því að hefja vinnu við nýtt aðalskipulag. Í ljósi þeirra margvíslegu verkefna sem legið hafa á umhverfis- og framkvæmdasviði varð hins vegar niðurstaðan sú að beina kröftunum að öðru í bili. Það er þó ekki þar með sagt að ekkert hafi gerst hvað varðar aðalskipulag. Verkefni um greiningu vindorkukosta í sveitarfélaginu sem nú er hafið er mikilvægur undirbúningur fyrir aðalskipulagsgerð auk þess sem ráðist hefur verið í fjölmargar nauðsynlegar breytingar á gildandi aðalskipulagi. Alls var unnið að 20 slíkum verkefnum á síðasta ári og átta þeirra var lokið um áramót.
Þegar kemur að deiliskipulagi eru tölurnar enn magnaðri. Alls var unnið að 50 deiliskipulagsmálum á síðasta ári og 27 þeirra var lokið um áramót. Þetta eru gríðarleg afköst, sérstaklega þegar horft er til þess að verið var að vinna innan glænýs stjórnkerfis þar sem samhliða vinnunni þurfti að tileinka sér og slípa til ferla og samspil starfsfólks, umhverfis- og framkvæmdaráðs, heimastjórna og sveitarstjórnar.
Gott skipulag er forsenda allrar skynsamlegrar uppbyggingar. Við eigum ekki að gefa afslátt af skipulagsmálum því að það sem við byggjum í dag getur staðið, og á sannarlega að standa, um áratugi og jafnvel lengur. Við viljum að fjárfestingar í húsbyggingum séu hugsaðar til langs tíma en ekki sem skammtíma húsnæðislausnir sem vinna mögulega gegn heildarhagsmunum til framtíðar. Það þýðir að við verðum að sjá heildarmyndina áður en við byrjum. Til þess eru skipulagsferlar, aðalskipulag og deiliskipulag.
Lóðamál
Sú skipulagsvinna sem tæpt hefur verið á hér að framan hefur mikið til snúist um að tryggja framboð byggingarlóða í öllu sveitarfélaginu. Ekki hefur hvað síst verið horft til þess að tryggja fjölbreytni og mismunandi valkosti fyrir fólk og fyrirtæki sem hyggja á húsbyggingar. Þessu verkefni mun aldrei ljúka en staðan í dag er alls ekki slæm, nóg er til af lóðum fyrir flestar gerðir húsnæðis og meira í farvatninu.
Eitt lítið verkefni sem ráðist var í sem skiptir þó verulegu máli er að núna er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins lista yfir allar byggingarlóðir sem lausar eru til úthlutunar, ásamt áætluðum gjöldum sem þarf að greiða til að byggja á þeim. Þetta virðist sjálfsagt, en var þó ekki til staðar áður en Múlaþing varð til og er alls ekki tilfellið hjá mörgum sveitarfélögum sem við berum okkur saman við. Á þessum lista eru nú rétt um 90 lóðir. Þar við eru að bætast á annan tug lóða á Djúpavogi, tugir lóða í Votahvammi á Egilsstöðum og alls er gert ráð fyrir um 160 íbúðum í nýju miðbæjarskipulagi á Egilsstöðum.
Það er sannarlega margt búið að gerast og frá mörgu að segja hvað varðar skipulagsmál í Múlaþingi. Við hyggjumst því senda frá okkur fleiri greinar á næstunni til að gera frekari grein fyrir stöðu einstakra mála og málaflokka innan sviðsins.
Höfundar eru formaður og varaformaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings.