Að hringja í vin!

Sveitarfélög og málefni þeirra hafa verið minn starfsvettvangur í um 35 ár. Þar af hef ég gengt bæjar- og sveitarstjóra auk stöðu hafnarstjóra.

Að starfa hjá sveitarfélagi eru ákveðin forréttindi. Vinna með fólki við uppbyggingu samfélagsins og sjá það vaxa og dafna. Fá fólkið með sér og ná því fram, að því líði þannig að það telji sig sem hluta af samfélaginu. Samfélagi þar sem virðing er borin fyrir því og skoðunum þeirra, hæfileikar og reynsla séu virtar af stofnunum sveitarfélagsins og stjórnendum þess.

Það hefur verið skoðun mín lengi að efling sveitarstjórnarstigsins sé mikilvægur þáttur í að styrkja landsbyggðina. Með því að efla sveitarstjórnarstigið er stefnt að því að sveitarfélög verði enn sjálfbærari stjórnsýslueiningar sem geti tryggt íbúum sínum sem besta þjónustu og séu virkur vettvangur lýðræðislegrar starfsemi.

Við sem fædd erum og uppalinn í fámennum samfélögum vitum að smæðin hefur leitt til þess að fólk hefur flutt af svæðinu á þeim forsendum að tækifæri til að nýta hæfileika sína eru ekki fyrir hendi. Við höfum einnig upplifað það að fólki hefur fundist ríkja ákveðin samtrygging sem komið hefur fram á ýmsum sviðum.

Slík samtrygging er hættuleg, virkar illa á fólk og étur samfélagið að innan. Íbúar í samfélögum sem byggja á slíkri samtryggingu finna fljótt að yfir bænum liggur keimur að nálykt. Lykt sem við vitum að mun skaða samfélagið og það mun standa í vegi fyrir því að það vaxi og dafni sem metnaðarfullt samfélag byggt á lýðræðislegum vinnubrögðum.

Með tilkomu Múlaþings þar sem lagt var upp með það metnaðarfulla veganesti að stjórnsýsla sveitarfélagsins verði skilvirk. Fulltrúum í sveitarstjórn fjölgað, kjör þeirra bætt þannig að þeir ættu að geta sinnt sínum störfum af alúð og réttsýni. Komið var á fót fagráðum sem sjá um ákveðna málaflokka og settar á laggirnar heimastjórnir til þessa tryggja að lýðræðið sé í hávegum haft. Allt eru þetta metnaðarfull markmið sem við íbúar eru stoltir af, enda mikilvægt til að tryggja að samfélag þar sem sá háttur er sagður hafi viðgengist við mannaráðningar að hringja í vin, heyri sögunni til. Megi Múlaþing ávallt vera í fararbroddi sveitarfélaga hvað varðar lýðræðisleg vinnubrögð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.