Að ná sátt við nærsamfélagið
Fiskeldi hefur verið umdeild atvinnugrein en hefur þrátt fyrir það vaxið verulega að umfangi síðustu árin. Heilmikil endurskoðun fór fram á lagaumhverfi fiskeldis á síðustu árum. Frumvarp sem ráðherra lagði fram fór í gegnum umfangsmiklar breytingar hjá atvinnuveganefnd og á endanum greiddi enginn þingmaður atkvæði gegn lögunum.Lykillinn að þeirri sátt sem náðist var sú hugsun að uppbygging atvinnugreinarinnar gæti aðeins verið í sátt við umhverfi og samfélag, ekki síst nærsamfélag. Það væri eðlileg krafa fyrir atvinnurekstur sem nýtti sér sameiginlegar auðlindir og uppbygging gæti aðeins orðið á vísindalegum grunni þar sem umhverfis og náttúru yrði gætt.
Nýtt fyrirkomulag fiskeldis gerir ráð fyrir því að fjörðum og hafsvæðum sé skipt í eldissvæði og þau síðan boðin út. Atvinnuveganefnd Alþingis taldi nauðsynlegt að tengja þetta betur lögum um náttúruvernd og lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Nefndin gerði breytingu í þá átt að „við skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði skuli til viðbótar við Skipulagsstofnun haft samráð við Umhverfisstofnun og svæðisráð viðkomandi svæðis. Með því næst einnig betri tenging við lög um náttúruvernd,“ eins og segir í nefndarálitinu. Alþingi samþykkti þetta.
Þegar lögin tóku gildi lifðu í kerfinu umsóknir um leyfi fyrir fiskeldi samkvæmt gömlu lögunum. Það gerir stöðuna flókna; um sum leyfi sem gefin eru út eftir samþykkt laganna fer því samkvæmt reglunum fyrir samþykkt þeirra.
Seyðisfjörður er nú vettvangur deilna um fiskeldi. Þar hefur verið sótt um leyfi fyrir eldi og eru þær umsóknir hluti þeirra sem lifðu í gamla kerfinu. Nýju lögin ná því ekki utan um þær. Þess vegna þarf ekki að hafa það samráð við Umhverfisstofnun og svæðisráð sem þarf eftir nýju lögunum, það þarf ekki að tengja umsóknirnar betur lögum um náttúruvernd og lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Það er sérstaklega óheppilegt á þessu svæði þar sem vinna við skipulag haf- og strandsvæða er langt komin og svæðisráð er virkt. En það þarf ekki að taka tillit til þess, samkvæmt laganna bókstaf.
En eitt er að þurfa, annað að vilja. Skipulagslýsing um haf- og strandsvæði liggur nú þegar fyrir af hálfu svæðisráðs. Gert er ráð fyrir því að tillaga að skipulagi, ásamt umhverfismati, verði tilbúin til kynningar á vormánuðum 2021. Afurð þeirrar opnu og lýðræðislegu vinnu sem skipulaginu er ætlað að vera, fyrir hina ýmsu hagsmunaaðila og ekki síst nærsamfélögin, er því handan við hornið.
Fiskeldisfyrirtækjunum sem ætla sér að nýta náttúruauðlindir Seyðisfjarðar er í lófa lagið að stíga lengra en lögin boða. Að bíða eftir skipulagi haf- og strandsvæða, að hafa samráð við svæðisráðið, að tala þannig betur við nærsamfélagið á Seyðisfirði. Að leggja sig sérstaklega fram um að ná meiri sátt um starfsemi sína. Að fara eftir þeim einbeitta vilja löggjafans sem birtist í nefndaráliti atvinnuveganefndar.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna