Að staðsetja eða staðsetja ekki

Á dögunum lagði bæjarráð Fjarðabyggðar fram bókun er varðaði auglýst starf Matvælastofnunar á sviði fiskeldismála. Þar var því mótmælt að umrætt starf væri auglýst með starfstöð á Egilsstöðum í stað þess að starfstöð viðkomandi væri á Austurlandi. Þykir það skjóta skökku við samkvæmt starfslýsingu að viðkomandi eigi að vera með aðstöðu þar sem ekkert fiskeldi er né verður.

Það er gott mál að stofnanir séu að færa störf sín út á land, ég fagna því. Það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að flestu leyti en þar er ráðuneytum og stofnunum gert að skilgreina og auglýsa störf án staðsetningar eins og kostur er. Það var ekki gert í þessu tilfelli, staðsetning var fyrirfram ákveðin sem er óskiljanlegt.

Það kom því á óvart að vinur minn og forseti sveitarstjórnar Múlaþings, Gauti Jóhannesson, skyldi taka bókuninni illa og skrifa um hana heila grein um það hvers vegna Múlaþing bókaði ekki neitt vegna bókunar Fjarðabyggðar. Sérstaklega kemur það á óvart sökum þess að Gauti hefur nýlega vitnað í stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um „störf án staðsetningar“ í annarri grein og þá bar við annan tón enda verið að flytja störf frá sveitarfélaginu. Viðbrögðin koma einnig á óvart í ljósi þess að bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa það á stefnuskrá sinni að hvetja stofnanir til að auglýsa störf án staðsetningar. Á það þá ekki við hér á Austurlandi?

Í greininni talar Gauti um skilninginn á því að Matvælastofnun sé ekki að reka fleiri en eina starfstöð á Austurlandi og „áskorunina sem felst í því að reka starfsstöðvar með einum starfsmanni í stað þess að mynda sterkari kjarna“. Þessi áskorun sem Gauti vitnar í er einmitt helstu rök þeirra sem berjast gegn því að flytja störfin út á land en samkvæmt þeim rökum væri eðlilegt að störfin væru áfram í borginni þar sem ríkiskontórarnir eru fyrir.

Það er rangt af okkar góðu grönnum að líta svo á að bókun Fjarðabyggðar væri einhverskonar áras gegn frekari uppbyggingu opinberra starfa þar, svo er alls ekki. Bókunin snéri fyrst og fremst að því að það væri á skjön við eftirlitshlutverkið að starfsmaðurinn væri hvergi nærri þjónustusvæði sínu. Það myndi einungis leiða til kostnaðarauka eins og ályktunin frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi kom inn á og samþykkt hefur verið samhljóða núna 2020 og 2019 en þar skorar SSA á ríkisvaldið að „tryggja að svæðisbundnu eftirlitshlutverki, t.d. Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits, sé sinnt af viðeigandi stofnunum á Austurlandi. Stjórnvöld þurfa að nýta betur mannauð og aðstöðu sem er til staðar í landshlutanum í stað þess að senda starfsmenn landshorna á milli með ærnum tilkostnaði frá miðlægum stofnunum. Þingið mótmælir harðlega þessari meðferð fjármuna og minnir á að í nýrri byggðaáætlun er gert ráð fyrir að hið opinbera hugi að dreifingu starfa á sínum vegum.“

Það er rétt hjá Gauta að við þurfum að standa saman í því að byggja upp öflugt Austurland. Bókun okkar í Fjarðabyggð hefur ekkert með kaldar kveðjur að gera, hún var einfaldlega í anda þeirra ályktanna og stefnuyfirlýsinga sem gefnar hafa verið að undanförnu og öllum má vera ljóst. Ef okkur hefði órað fyrir því að bókunin gæti skilist sem kaldar kveðjur til okkar góðu granna hefðum við eflaust staldrað við og það er því mér bæði ljúft og skylt að biðja mínu kæru vini afsökunar á því að hafa haft frumkvæðið af því að móðga þá, það var ekki ætlunin.

Að því sögðu efast ég ekki um að viðbrögðin hefðu verið á annan veg hjá okkar góðu grönnum ef starf þjóðgarðsvarðar Vatnajökulsþjóðgarðar væri auglýst með aðstöðu í Neskaupstað og skyldi engan undra.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.