Að vera ég. Hérna. Núna.

Homo Sapiens, hinn viti borni maður, er með mjög virkt heilabú. Þetta heilabú er afleiðing náttúruvals í þúsundir kynslóða. Þeir forfeður okkar sem lærðu af reynslunni og nýttu hana til að forðast hættur voru líklegri til að lifa af. Við höfum því mjög sterka innbyggða tilhneigingu til að pæla í fortíðinni og hafa áhyggjur af framtíðinni.

Þessir eiginleikar eru afar gagnlegir en í þeim liggur samt rótarorsök andlegra þjáninga. Við festumst auðveldlega í því að hugsa um neikvæða hluti úr fortíðinni og oft höfum við miklar áhyggjur af framtíðinni. „Ég hef upplifað margt hræðilegt á lífsleiðinni og sumt af því gerðist í alvörunni,“ mun Mark Twain hafa sagt og þar með hitt naglann algerlega á höfuðið. Stundum er sagt að heilinn sé teflonhúðaður þegar kemur að jákvæðum hugsunum en eins og franskur rennilás hvað neikvæðar hugsanir varðar.

En hvað er þá til ráða? Erum við þá ofurseld þessari neikvæðu skekkju hugans? Erum við dæmd til að vera endalaust týnd í hugsanaþoku fortíðar og framtíðar?

Þessum spurningum hefur mannfólkið velt fyrir sér í þúsundir ára. Ævafornar vedískar og búddískar heimildir frá Indlandi fjalla um þessar spurningar á mjög djúpan hátt. Grískir og rómverskir heimspekingar skeggræddu þetta einnig og Í gyðinglegum-, kristnum og íslömskum trúarhefðum má finna texta og aðferðir sem taka mið af þessum eiginleikum hugans.

Í þeim svörum sem þessar ólíku trúar- og heimspekihefðir hafa fundið er rauður þráður sem er nokkurn veginn þessi:

Þú ert meira en það sem þú hugsar. Hugsanir þínar eru ekki veruleikinn. Innra með þér er vitund sem allar hugsanir, tilfinningar og skynjanir myndast í. Þessi vitund er þitt sanna eðli. Vitundin er eins og himininn, en hugsanir og tilfinningar eru eins og skýin og veðrið sem koma og fara. Þú getur lært að tengja við þessa vitund í auknum mæli, „vakna“ þar með upp úr hugsanaflaumnum og skynja heiminn í réttu ljósi, hér og nú.

Þessar fornu pælingar um eðli hugans og þjáningar mannsins hafa á síðustu árum og áratugum gengið í endurnýjun lífdaga í nýjum búningi undir heitinu „núvitund“ (mindfulness). Núvitund byggir á þessum ævaforna heimspeki- og trúargrunni, en sífellt fleiri rannsóknir benda til þess að hún hafi fjölþætt jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu.

Núvitund er færni. Það er ekki nóg að vita um hvað hún snýst heldur er æfing og ástundun lykilatriði. Mjög einfalt er að gera slíkar æfingar. Dæmi um núvitundaræfingu væri t.d.:

• Beindu athyglinni að andardrættinum
• Leyfðu athyglinni að hvíla létt á honum án þess að reyna að breyta honum, dæma eða greina hvað er að gerast
• Um leið og hugsanir kvikna beinir þú athyglinni aftur að andardrættinum
• Ekki streitast gegn hugsunum eða svekkja þig á þeim. Þær bara koma og um leið og þú skynjar að athyglin er farin í hugsanirnar þá beinir þú henni mjúklega aftur að andardrættinum.

Þessi skref eru endurtekin aftur og aftur. Það myndast alltaf hugsanir og flestir geta ekki beint athyglinni að andardrættinum nema í nokkrar sekúndur áður en nýjar hugsanir skjóta upp kollinum. Það er lykilatriði að svekkja sig ekki á þessu heldur beina athyglinni bara aftur mjúklega að andardrættinum. Út á það gengur æfingin. Best er að byrja smátt í slíkum æfingum, til dæmis fimm mínútur á dag, en ákveða að æfa sig daglega, og mörgum reynist vel að æfa sig alltaf á sama tíma.

Núvitund má svo raunar iðka hvar og hvenær sem er og það eru til ótal aðferðir til þess arna: Á göngu, við uppvaskið, í sturtunni eða þegar maður burstar tennurnar. Núvitund getur verið að taka einn djúpan fullkomlega meðvitaðan andardrátt og tengja við vitundina innra með sér.

Iðkun núvitundar getur lækkað streitustigið, sem hefur fjölþætt jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Hún eykur getuna til að vera „hér og nú,“ skynja hvað er að gerast akkúrat núna, bæði hið innra og ytra. Núvitund hjálpar okkur að sættast við hugsanir og tilfinningar og hafa á sama tíma betri stjórn á hegðun okkar. Núvitund gerir okkur einnig betur kleift að njóta ferðalagsins, njóta þess sem er að gerast akkúrat núna. Núvitund getur líka haft mjög jákvæð áhrif á sambönd okkar við annað fólk. Meira um það í næsta pistli.

Höfundur er ráðgjafi og fjölskyldufræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.