Aðgerðir Fljótsdalshéraðs til viðspyrnu vegna áhrifa af Covid19
Þrátt fyrir fyrirsjáanlega tekjuskerðingu þá mun þjónusta gagnvart íbúum Fljótsdalshéraðs ekki verða skert né stendur til að draga úr fyrirhuguðum framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins heldur er horft til að þess að auka heldur við fyrirhugað viðhald og framkvæmdir á vegum þess.Til viðbótar við þær aðgerðir er samþykktar voru á fundi bæjarstjórnar 1. apríl sl., og snúa að frestun á eindögum fasteignagjalda vegna apríl og maí til nóvember og desember, hefur verið ákveðið að bjóða upp á störf í sumar fyrir námsfólk og einstaklinga sem mögulega falla tímabundið út af vinnumarkaði vegna áhrifa af Covid19.
Áherslan verður fyrst og fremst á störf er snúa að umhverfisverkefnum, þjónustu við barnafjölskyldur, þróun stjórnsýslu og að almennri þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.
Vegna þessa hefur bæjarstjórn samþykkt viðauka við samþykkta fjárhagsáætlun vegna ársins 2020 sem gerir ráð fyrir því m.a. að rekstrarafkoma A-hluta lækki um tæpar 202 millj.kr. en í samstæðunni í heild um rúmar 187 millj.kr.
Þetta ásamt aukinni lántöku upp á um 260 millj.kr. mun leiða til hækkunar skuldahlutfalla frá því sem gert hafði verið ráð fyrir en skuldaviðmið verða samt sem áður töluvert undir þeim viðmiðum er sett hafa verið af eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.
Traust staða sveitarfélagsins gerir það að verkum að það er í stakk búið til að bregðast að vissu leiti við þeim neikvæðu áhrifum af Covid19 sem fyrirsjáanleg eru. Það er hins vegar ljóst að framundan eru erfiðir tímar og nauðsynlegt verður við stefnumótun vegna komandi ára að hafa það að leiðarljósi að tryggja áfram getu sveitarfélagsins til að sinna ásættanlegri þjónustu við íbúa þess til lengri tíma litið.
Ef horft er til þeirrar samheldni er hér ríkir og þess hversu vel íbúar sveitarfélagsins og starfsfólk þess hafa brugðist við ábendingum frá málssvörum almanna- og sóttvarna er þó full ástæða til að ætla að við munum takast á við og leysa þann vanda er við er að glíma á farsælan hátt.
Höldum áfram að virða hvert annað og snúa bökum saman.
Höfundur er bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs