Afgangsstærð

Það er hverjum einstaklingi mikilvægt að finna fyrir tilgangi sínum í samfélaginu, vera hluti af stærri heild og upplifa að þeirra framlag skipti máli. Öll höfum við fundið fyrir breytingum og óvissu seinustu ára og margir sem hafa saknað þess að taka þátt í félagsstarfi eða sinna áhugamálunum. Það er nefnilega þannig að í kringum allt skapast ákveðið samfélag.

Það er ekki það sama að spila rommý í tölvunni og að hitta spilaklúbbinn.
Það er ekki það sama að syngja í sturtunni og að mæta á kóræfingu.
Það er ekki það sama að skreppa ein út á sparkvöll og að fara í bumbubolta.
Það er ekki þar með sagt að við njótum þess ekki með sjálfum okkur - það er bara ekki það sama.

Vissulega erum við mismiklar félagsverur en þetta er ekki spurning um stöðug félagsleg samskipti heldur snýr frekar að því að vera hluti af hópi - að tilheyra.

Í baráttu við veikindi, og þá sérstaklega langvarandi veikindi, leggja sérfræðingar gjarnan áherslu á virkni. Það er að segja að einstaklingurinn sé, eða haldi áfram að vera, eins virkur og heilsa leyfir hverju sinni. Þetta felur í sér bæði líkamlega virkni en einnig að vera virkur þátttakandi í samfélaginu.

En hvað með fólk sem stendur utan vinnumarkaða?
Stundar ekki nám?
Hefur ekki tök á að taka þátt í sömu líkamsrækt og flest?
Hvar passar það inn í samfélagið okkar?

Í Fjarðabyggð skortir sárlega úrræði fyrir fólk sem stendur utan vinnumarkaðar. Það er enginn staður þar sem við getum mætt saman og stutt við heilsu hvors annars. Enginn ákveðinn staður þar sem við getum sinnt okkar endurhæfingu. Enginn staður þar sem við getum komið saman, sýnt okkur og séð aðra. Enginn staður sem er okkar. Enginn staður þar sem við erum velkomin.

Þessar aðstæður telur VG í Fjarðabyggð ekki boðlegar og mun berjast fyrir breytingum.

Höfundur er Guðlaug Björgvinsdóttir sem um þessar mundir stendur utan vinnumarkaðar vegna veikinda og skipar 12.sæti á framboðslista VG í Fjarðabyggð.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.