AFL afhendir ekki samningsumboð félaga innan sinna vébanda
AFL starfsgreinafélag ætlar ekki að afhenda Starfsgreinafélagi Íslands samningsumboð félaga sinna vegna kjarasamninga launanefndar sveitarfélaga, eins og venja hefur verið. AFL er nú þriðja fjölmennasta verkalýðsfélag landsins.
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs, hefur sagt að félagsmenn treysti heimamönnum best fyrir samningagerð fyrir sig og því muni hún fara fram á félagssvæðinu. Ólga hafi skapast vegna umræðu um að gera ætti þjóðarsátt og félagsmenn tekið því sem svo að þeim ætti að fórna.
Í síðustu kjarasamningum hafi flest stéttarfélaganna falið launanefnd sveitarfélaga samningsumboð fyrir sína hönd. Sveitarfélögum hafi þá verið settur ákveðinn rammi. Fljótlega hafi Reykjavíkurborg samið betur og launanefndin í kjölfarið gefið heimild fyrir að sveitarfélög bættu kjör upp að einhverju marki. Undanfarið hafi nokkur sveitarfélög brotist undan því sem Hjördís Þóra kallar ok launanefndarinnar og greitt starfsmönnum betur en samningur kveður á um. Önnur sveitarfélög skýli sér á sama tíma á bak við launanefndina.
Framsýn, félag stéttarfélaga í Þingeyjarsýslu ætlar heldur ekki að afhenda samningsumboð félaga sinna vegna kjarasamninga.
Kjarasamningar launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinafélags Íslands falla úr gildi 30. nóvember n.k.
Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir