Áföll og áfallameðferð í kjölfar atburða á Seyðisfirði
Áfall er skilgreint sem sterk streituviðbrögð í kjölfar ákveðinna óvæntra atburða, eins og náttúruhamfara. Aðeins lítill hluti þeirra sem í slíkum áföllum lenda veikjast af sálrænum kvillum og þurfa því meiri áfallahjálp en sálrænan stuðning.Langvinn eftirköst eru mun líklegri eftir áföll af manna völdum til dæmis ofbeldis, svo sem alvarlegrar líkamsárásar eða nauðgunar. Þungi áfallsins hefur einnig áhrif á hvort áfall hefur langvinn eftirköst, til dæmis sé öryggistilfinningu ógnað eða líf einstaklings í hættu.
Fyrstu viðbrögð eftir alvarlegan atburð eru oft doði, tómleiki óraunveruleikatilfinning, brenglað tímaskyn, kvíði og spenna.
Þá er sálræn skyndihjálp eða stuðningur sú hjálp sem viðkomandi þarf fyrst og fremst á að halda. Best er ef hún er veitt af þeim sem eru í nánasta umhverfi svo sem af fjölskyldu og vinum.
Sálræn skyndihjálp er fyrsta og mikilvægasta hjálpin fyrir þann sem hefur komist í hvers konar alvarlegt tilfinningalegt uppnám, til dæmis eftir að hafa lent í lífsháska, hjálparleysi eða upplifað missi.
Slíkri reynslu fylgir oft mikill ótti, hjálparleysi eða hryllingur sem getur setið eftir í huganum og valdið ýmis konar viðbrögðum, meðal annars svokölluðum áfallastreituviðbrögðum.
Áfallastreituviðbrögð eru eðlileg líkamleg, hugræn og tilfinningaleg viðbrögð heilbrigðs fólks við áföllum. Þau felast meðal annars í að: endurupplifa atburðinn, forðast allt sem minnt getur á hann, doða, skorti á einbeitingu og minnistruflanir, svefntruflanir, martraðir, tilhneigingu til að einangra sig, sektarkennd og sjálfsásökunum, reiði, pirringi og kvíða, jafnvel ofsakvíða.
Hjálparleysistilfinning hefur oft djúpstæð áhrif á þá sem hafa mikla þörf fyrir að hafa stjórn á aðstæðum, en það fer einmitt úr böndunum við áföll.
Munurinn á áfalli og kreppu
Það sem greinir áföll frá sorg eða kreppu er að áföll eru yfirleitt skammvinnir atburðir, standa yfirleitt stutt, á meðan kreppa sem fylgir alvarlegum veikindum, skilnaði eða missi varir lengur. Í slíkum tilvikum er ekki um ákveðinn atburð að ræða heldur tímabil sem markast af miklum breytingum í lífi einstaklingsins. Þá eru viðtöl eða stuðningur til lengri tíma er nauðsynlegur en ekki skammvinn íhlutun eins og áfallahjálp.
Áfallahjálp er ekki meðferð því það er ekki sjúkdómur að upplifa áfallastreituviðbrögð, ekki frekar en það er sjúkdómur að vera í sorg.
Fólk þarf aðstoð við að skilja líðan sína og fræðslu um hvernig best er að takast á við þessi sterku viðbrögð.
Hvert á að leita eftir frekari stuðningi?
Ef þörf er á meiri aðstoð, en sálrænum stuðningi frá nánustu ættingjum og vinum, er hægt að leita til fagfólks sem veitt getur einstaklingum, eða hópum, sérhæfðan sálrænan stuðning. Ef þið teljið ykkur þurfa meiri stuðning en hægt er að fá með því að tala saman og hlusta á aðra er hægt að leita til áfallaliða í þjónustumiðstöð í Herðubreið, heilsugæslu, presta eða félagsþjónustu.
Ein besta leiðin til að vinna sig út úr sálrænum eftirköstum áfalla er að halda rútínu svo sem reglulegum og góðum svefni, borða vel, hreyfa sig og hafa nóg fyrir stafni. Það er líka gott að geta stutt og hjálpað öðrum. Þið á Seyðisfirði eruð sérfræðingar í Seyðfirðingum og þekkið bæinn ykkar best.
Það eru ekki alltaf þeir sem heyrist mest í sem þurfa mest á aðstoð að halda, oft eru það þeir sem einmitt láta ekki sjá sig eða heyra sem þurfa hjálpina. Ég vil því biðja ykkur um að vera vakandi fyrir náunganum og líta til með þeim sem búa einir eða eru lítið félagslega virkir. Hugum sérstaklega að þeim sem eru nýfluttir í bæinn, eru af erlendu bergi brotnir og skilja ekki eins vel það sem er að gerast. Í Herðubreið er tekið við ábendingum um aðila sem mögulega þurfa meiri stuðning eða aðstoð og við viljum gjarnan heyra frá ykkur. Verum líka dugleg að hjálpa þeim sem ekki eru tölvufærir svo sem öldruðum eða þeim sem eru af erlendum uppruna og skilja málið ekki vel til að fara inn á upplýsingasíður sem sérstaklega hafa verið settar upp.
Sama gildir um aðra þjónustu svo sem fjárhagsaðstoð eða félagslega ráðgjöf, hana er hægt að sækja til okkar í félagsþjónustunni eða beina fyrirspurnum í gegnum Herðubreið. Félagsráðgjafi verður staddur í Herðubreið næstu mánudaga kl. 10:00-14:00. Hægt er að panta viðtal hjá honum í síma félagsþjónustu eða hjá hjálparliðum í þjónustumiðstöð. Söfnunarsjóður Rauða krossins hefur hafið úthlutanir úr sjóðnum til einstaklinga sem hafa misst eigur eða orðið fyrir tjóni vegna hamfaranna. Hægt er að sækja um styrki úr sjóðnum í Herðubreið, hjá prestum, félagsþjónustu og Rauða krossinum.
Það vekur aðdáun okkar allra sem vinna að málefnum Seyðfirðinga hversu vel aðgerðir vegna hamfaranna hafa gengið. Það er einstakt hversu vel þið standið saman og styðjið hvert annað – það er sannarlega merki um gott og fallegt samfélag. Við eigum samt langt í land og mikla vinnu fyrir höndum. Það líða ár áður en allt verður komið í samt lag aftur.
Mikilvægt að hlúa að börnum og ungmennum
Ég vil minna ykkur á að huga sérstaklega að börnum og ungmennum sem hafa ekki sama þroska og fullorðnir til að takast á við áföll. Hlustum á þau og gefum þeim tíma, svörum spurningum þeirra af heiðarleika og munum að þeirra viðbrögð og líðan mótast að miklu leyti af viðbrögðum hinna fullorðnu. Farið hefur verið í skólann og rætt við alla bekki auk þess sem kennarar hafa fengið viðrun og handleiðslu. Því verður haldið áfram eftir þörfum, sem og öðrum stuðningi sem þarf á hverjum tíma.
Það er gott að HSA hefur fengið aukafjármagn til þess að sinna geðvernd vegna atburðanna. Við eigum góða sérfræðinga þar ásamt prestunum okkar og starfsfólki félagsþjónustu.
Múlaþing veitir skjól ef rýma þarf hús
Ég veit að mörg ykkar, sem ekki hafið fengið að fara heim, eruð hugsandi um framtíðina og líka þau sem eiga húsnæði á hættusvæði. Við viljum getað svarað spurningum ykkar eins fljótt og hægt er en heiðarlega svarið er að engin svör liggja fyrir á þessari stundu. Unnið er að því eins fljótt og mögulegt er að komast að endanlegri niðurstöðu með áherslu á velferð bæjarfélagsins og öryggi íbúa.
Við rýminguna síðasta föstudag komust nær allir sem þurftu að fara heiman frá sér, sjálfir í gistingu og að mestu á Seyðisfirði. Fljótlega verður haft samband við ykkur sem þurftuð að rýma og búið við þær aðstæður að þurfa mögulega að gera það oftar í vetur. Við viljum kanna hverjir hafa húsaskjól hjá ættingjum eða vinum og hverjir myndu vilja óska eftir húsnæði á vegum sveitarfélagsins þegar og ef til rýmingar kemur. Þá ætti að vera enn skýrar og fljótlegra að ganga frá gistingu og skráningu ykkar í slíkum tilfellum.
Varðandi þá sem ekki geta eða vilja fara heim aftur og búa í húsnæði á vegum sveitarfélagsins, þá hefur verið tekin ákvörðun um það að búsetustuðningur gildi áfram og óbreyttur út febrúarmánuð. Áður en mánuðurinn er liðinn verður tekin afstaða til framhaldsins.
Höldum áfram að sækja hjálparstöðina í Herðubreið og tala saman um hvað við upplifðum og hvernig okkur líður. Endilega komið beiðnum um frekari stuðning til ykkar sjálfra eða annarra, gjarnan í gegnum Herðubreið eða beint til félagsþjónustu.
Höfundur er félagsmálastjóri Múlaþings.
Samantekt um áföll er að mestu tekin af heimasíðu LSH