Afsláttur af mannréttindum

Þegar ég flutti heim frá Englandi 2020 og fór að kynna mér flokkana og málefni þeirra sá ég að það þýðir ekki að lesa bara það sem sett var fram í auglýsingum. Ef ég hefði gert það þá hefði ég getað lokað augunum í kjörklefanum og sett x-ið einhvers staðar.

Málið er að allir flokkarnir vilja góðan efnahag, sterkara heilbrigðiskerfi og betra menntakerfi. Það þarf að fara á dýptina og það þarf að skoða hvernig flokkarnir hafa hugsað sér að ná sínum markmiðum.

Samhliða þeirri vinnu er gott að velta fyrir sér sínum eigin grunngildum. Það er ólíklegt að maður finni flokk þar sem maður er sammála í einu og öllu. Maður gæti þurft að gera einhverjar málamiðlanir, eða stofna enn einn flokkinn.

Þeim sem finnst nóg af flokkum og telja sig geta átt samleið með einhverjum af þeim sem fyrir eru er því hollt að velta því fyrir sér hvað það er sem þeir eru tilbúnir að gera málamiðlanir með. Eru það atriði er varða stóriðju, samgöngur, alþjóðasamstarf eða eitthvað annað?

Fyrir mér var þetta einfalt, ég fann mjög fljótt að ég átti samleið með Viðreisn. Ég sá líka að þar þurfti ég ekki að gefa neinn afslátt á mín grunngildi og þá meina ég að ég þurfti ekki að gefa afslátt á mannréttindi, jafnrétti eða réttlæti. Heilsa fólks, andleg- og líkamleg, er sett í forgrunn. Mér fannst auðvelt að hengja nafnið mitt við Viðreisn og hef síðan þá verið stolt Viðreisnarkona og fullviss að flokkurinn setur réttindi fólks og frelsi í fyrirrúm.

Í mínum huga get ég ekki gefið afslátt á mannréttindum. Hefur þú spáð í því hvar þú gefur afslátt með x-inu þínu?

Heiða Ingimarsdóttir Frambjóðandi í 2. sæti á lista Viðreisnar fyrir komandi Alþingiskosningar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.