Áherslur fjölskylduráðs í fjárhagsáætlun Múlaþings 2022-2025

Nú þegar sveitastjórn Múlaþings hefur samþykkt fjárhagsáætlun 2022-2025 er rétt að fara yfir það helsta er snýr að fjölskylduráði í þeirri áætlun. Áður en lengra er haldið er ágætt að rifja upp að undir fjölskylduráð heyra þrjú svið en þau eru fræðslusvið, íþrótta- og æskulýðssvið og félagssvið. Þessi þrjú svið taka til sín lang stærsta hluta kökunnar eða 4,4 milljarða sem gera um 66% af heildartekjum A-hluta sveitafélagsins.

Auðvitað fer lang stærsti hluti þessa fjármuna í áætluninni í laun og almennan rekstur skólanna og til félagsmála en mig langar að fara yfir aðrar áherslur sem hafa komið frá fjölskylduráði.

Á Fljótsdalshéraði hefur stefnan verið að innrita leikskólabörn sem orðin eru eins árs á vorin og haustin. Dagforeldrar hafa gegnt mikilvægu hlutverki á Héraði með því að taka þau börn sem ekki komast tímabundið á leikskóla. Núna er staðan hins vegar sú að engir dagforeldrar eru starfandi á Fljótsdalshéraði um þessar mundir og til að brúa bilið þangað til nýr leikskóli í Fellabæ opnar næsta haust verður 10 milljónum varið í að opna deild í Vonarlandi. Með þessu er vonast til að hægt verði að leysa að mestu þann vanda sem skapast hefur en með tilkomu nýs leikskóla í Fellabæ verða til um 20 ný leikskólapláss. Einnig hefur verið samþykkt að verja 20 milljónum til hönnunar nýs leikskóla á Egilsstöðum 2023.

Þá verður ráðinn húsvörður til að sinna viðhaldi og öðru tilfallandi í leik- og grunnskóla Fellabæjar. Ég sé fyrir mér að húsvörður í Fellabæ og húsvörður Egilsstaðaskóla geti myndað teymi þegar við á í stærri verkefnum.

Aukið fjármagn í tölvu- og tæknimál í skólum

Fjölskylduráð samþykkti að verja 30 milljónum til innspýtingar í upplýsingatækni í leik- og grunnskólum sem löngu er orðið tímabært til að fylgja þeirri þróun sem hefur orðið í skólum og kennsluaðferðum undanfarin ár. Ég sé þetta ekki sem einskiptis átaksverkefni heldur mun þurfa aukið fjármagn til uppbyggingar tölvu- og tæknimála í skólum sveitafélagsins næstu árin þangað til skólar, starfsfólk og nemendur standa jafnfætis þeirri tækniþróun sem hefur orðið. Síðan mun þurfa fjármagn til að viðhalda þeirri þekkingu og tækniuppbyggingu sem náðst hefur.

Það er hins vegar umhugsunarvert þegar litið er til baka þegar sveitarfélög tóku við rekstri skólanna hélt ríkið eftir kostnaði vegna námsgagna hjá sér. Með áðurnefndri þróun er stór hluti námsgagnakostnaðar kominn á rafrænt form í formi ýmissa tölvuforrita og tækja og hefur því námsgagnakostnaður færst að miklu leyti yfir á sveitarfélög.

Allir vinna í íþróttum

Aðalstjórn Hattar kynnti þróunarverkefni sem felur í sér breytta nálgun á æfingum barna í 1.-4. bekk fyrir fjölskylduráði sem hlotið hefur vinnuheitið „Allir vinna“. Í stuttu máli snúast áform aðalstjórnar um að krökkum í 1.-4. bekk standi til boða að æfa 5-6 íþróttir og greiða fyrir það eitt gjald. Markmiðið er að fá fleiri krakka til íþróttaiðkunar og ekki síst að minnka brottfall. Fjölskylduráði leyst mjög vel á hugmyndafræðina að baki þessa verkefnis og styrkti það um 6 milljónir. Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni.

Við þurfum að hlúa eins vel og hægt er að jaðarbyggðunum. Um árabil hefur starfað framkvæmdastjóri Neista á Djúpavogi með aðkomu hreppsins og mun gera áfram með aðkomu Múlaþings. Foreldrastarf í fámennum byggðarkjörnum er oft mjög þungt og því samþykkti fjölskylduráð beiðni frá Huginn á Seyðisfirði að fara að fordæmi þeirra á Djúpavogi og veita 5 milljónum til ráðningar framkvæmdastjóra Hugins. Hlutverk hans verður meðal annars að halda utan um þjálfaramál og viðburði/fjáraflanir eins og sjómannadag, 17. júní o.þ.h.

Tómstundastyrkir

Fjölskylduráð samþykkti reglur um tómstundastyrk síðastliðinn nóvember með þeim breytingum að 16-18 ára ungmenni geta nýtt styrkinn til kaupa á korti í líkamsrækt og/eða sundlaug. Fjölskylduráð leggur áherslu á mikilvægi þess að þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref í líkamsræktarstöðvum fá leiðsögn þeirra sem til þekkja.

Undanþegin reglum um tómstundastyrk eru börn með lögheimili og búsetu á Borgarfirði eystra, en þau hljóta áfram sérstakan styrk frá sveitarfélaginu vegna kostnaðar íþrótta- og tómstunda og ferða þeirra vegna. Um er að ræða 200.000 krónur á ári fyrir hvert barn í grunnskóla og 100.000 krónur á ári fyrir hvert barn í leikskóla.

Þá samþykkti fjölskylduráð að greiða framlag til foreldra barna sem eru orðin eins árs og eru á biðlista á leikskóla til að koma til móts við mögulegt vinnutap foreldra.

Höfundur er formaður fjölskylduráðs Múlaþings


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.