Allherjaröngþveiti á Fjarðarheiði

Björgunarsveitir á Austurlandi verða með sameiginlega æfingu á Fjarðarheiði 18. apríl. Skúli Hjaltason hjá Björgunarsveitinni Gerpi á Norðfirði heldur ásamt fleirum utan um framkvæmd æfingarinnar. ,,Markmiðið er að æfa nokkuð mikla breidd,“ segir Skúli. ,,Til að samtvinna þetta nú allt í eitt allsherjarslys setjum við þetta þannig upp að á heiðinni hrapi flugvél, sem kemur af stað snjóflóði, sem fellur síðan á rútu.

bjrgunarsveitarfing_ss.jpg

Þannig er hægt að vera með þrjá vettvanga í einu. Flugslysið verður út á heiðinni og þá reynir á flutninga á þeim sem eru þar í slysi. Snjóflóðasvæðið verður tvenns konar. Annars vegar leit að lifandi fólki með hundum og hins vegar stangaleit að dunkum. Rútuslysið er nú samt það sem við erum að horfa mest á, því það er eitthvað sem getur dunið yfir okkur alla daga. Stærsti vettvangurinn verður þar og flestir slasaðir. Annars ræðst á næstu dögum hvað við fáum marga sjúklinga, því unglingadeildarfélagar af Reyðarfirði, Norðfirði og Héraði ætla að manna það.“

  

Ýmsan undirbúning þarf fyrir æfingu af þessu tagi. Útbúa þarf sjúklinga, gera slysavettvang, grafa holur fyrir lifandi fólk og búa til snjóflóð með troðara. Ekki liggur ljóst fyrir hversu margir munu taka þátt í æfingunni, en lokadagur skráningar er 2. apríl. Skúli segist vonast til að um 70 manns taki þátt af svæðinu frá Djúpavogi á Vopnafjörð.

  

Eftir æfinguna stendur til að halda árshátíð austfirskra björgunarsveita í Herðubreið á Seyðisfirði.

Skúli segir góða samvinnu milli björgunarsveita á Austurlandi. Víða hafi verið haldnar sameiginlegar æfingar og nú er rústabjörgunarsveit björgunarsveitanna stærsta sameiginlega samvinnuverkefnið.  Rústabjörgunarsveitin er til taks á landsvísu. 

Alþekkt er að björgunarsveitirnar mætast oft í leit eða öðrum björgunaraðgerðum á Austurlandi. Svæðisstjórn sveitanna kannar möguleika á björgunaraðgerðum í hverju tilfelli fyrir sig og allir möguleikar eru virkjaðir strax, uns mál hafa verið leyst. Skúli segir björgunarsveitir á Austurlandi þokkalega mannaðar. Þá séu upp undir tugur leitarhunda virkir í fjórðungnum og tækjabúnaður víðast ágætur.

 

 

Ljósmynd/SS

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.