Almenningssamgöngur í Fjarðabyggð til framtíðar

Í september á síðasta ári hófst akstur samkvæmt nýju leiðakerfi almenningssamganga í Fjarðabyggð. Um er að ræða tilraunverkefni sem standa mun til loka þessa árs, að því loknu verður árangur af því metinn og framtíð almenningssamgangna í sveitarfélaginu byggð á niðurstöðum þess.

Framsókn í Fjarðabyggð hefur lagt á það mikla áherslu að slíkar samgöngur komist á, enda er það okkar trú að öflugt kerfi almenningssamgangna sé sameinuðu sveitarfélagi eins og Fjarðabyggð, mjög mikilvægt.

Fjarðabyggð er víðfeðmt sveitarfélag. Frá Breiðdal í suðri að Norðfirði í norðri eru um 100 kílómetrar og það er sannarlega áskorun að koma upp kerfi á þessari leið sem þjónar íbúum hvað best. Því er það afar mikilvægt að þróa kerfið á þessum tíma og sjá hvar það þarf að bæta það svo að það þjóni íbúum sem best. Á þeim 7 mánuðum sem liðnir eru frá því kerfið hóf starfsemi hafa orðið á því nokkrar breytingar eftir því sem betri reynsla hefur komið á það. Nú síðast var hluti af ferðum á suðurlegg kerfisins (Breiðdalsvík – Fáskrúðsfjörður) festur þannig að ekki þarf lengur að panta fyrirfram í 3 ferðar á þeirri leið. Einnig hefur tímatöflum beggja leiða verið breytt á tímabilinu, til að koma til móts við þarfir og óskir þeirra sem nota kerfið.

Framtíðin

Í huga okkar Framsóknarfólks í Fjarðabyggð er ljóst að öflugt kerfi almenningssamganga er komið til að vera. Nú í haust þarf að hefja vinnu við að skoða hvernig þeim verður best háttað frá og með næstu áramótum. Byggja á reynslunni sem við fáum nú á þessu ári með því og koma á fót kerfi sem mun þjóna samfélaginu til næstu ára. Vinnan framundan er margþætt. Leggja þarf mat á leiðakerfið í heild sinni, hvernig það hefur komið til móts við þarfir notenda og hvernig hægt er að bæta það enn frekar. Skoða þarf staðsetningar stoppistöðva og uppbyggingu þeirra þegar endanleg staðsetning liggur fyrir. Þá þarf síðast en ekki síst að vekja fólk til vitundar um þá möguleika sem opnast með kerfinu og gera notkun þess almenna og sjálfsagða hjá þeim sem sækja vinnu, skóla, tómstundir, íþróttir, menningu eða þjónustu þvert á sveitarfélagið. Þessa vinna verður ekki gerð á einni nóttu heldur er um að ræða langhlaup þar sem við erum rétt að leggja af stað.

Framsókn í Fjarðabyggð er stolt af því að hafa komið að því að koma á heildstæðukerfi almenningssamgangna í Fjarðabyggð. Við viljum halda þeirri vinnu áfram og gera almenningssamgöngur að raunverulegum valkost fyrir sem flesta íbúa sveitarfélagsins. Þar viljum við leggja okkar lóð áfram á vogarskálarnar.

Höfundur er bæjarstjóri Fjarðabyggðar og situr í 1. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.