Ánægjulegar fréttir úr Fjarðabyggð

Hér fyrir austan gengur vel. Atvinnulífið blómstrar og atvinnuleysi með því minnsta sem mælist. Þessu til staðfestingar birtust nýverið fréttir úr Fjarðabyggð. Enn einu sinni er Fjarðabyggð það sveitarfélag sem hefur hvað hæstu meðaltekjur á íbúa. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar voru árið 2023 heildartekjur einstaklinga í Fjarðabyggð 10.248.000 kr. Þessar tölur byggja á skattframtölum einstaklinga frá síðasta ári.

Fjórðu hæstu heildartekjur íbúa sveitarfélaga í landinu. Á meðan var miðgildi heildartekna í fyrra um 7,6 milljónir króna á ári, sem samsvarar því að helmingur einstaklinga hafði heildartekjur yfir 636 þúsund krónum á mánuði.

Framleiðsla skilar miklum tekjum


Um leið og ástæða er til að benda á sérstöðu Fjarðabyggðar sem felst í að meirihluti tekna skapast af framleiðslu. Framleiðsla í sjávarútvegi, laxeldi og áli skilar íbúum hærri tekjum og styrkir samfélagið. Sterkur grunnur atvinnu- og verðmætasköpunar byggir á útgerð og vinnslu sjávarafurða frá gjöfulum fiskimiðum undan ströndum Austfjarða, auk öflugri álframleiðslu og tengdum þjónustugreinum. Þá hefur verslun og þjónusta eflst, sérstaklega með vexti ferðaþjónustu að ónefndu blómlegu landbúnaðarhéraði Breiðdals.

Margar áskoranir


En áskoranirnar eru margar. Austasta sveitarfélag landsins er eitt það yngsta og telur um 5.500 íbúa skv þjóðskrá). Það varð til við samruna 14 sveitarfélaga í nokkrum áföngum á árunum 1988 til 2018. Þessi sameining, samstaða og samhugur er viðvarandi verkefni íbúa Fjarðabyggðar. Mikilvægt verkefni þar er að virkja fjölda þeirra sem er af erlendu bergi brotinn til lýðræðisþátttöku.

Nú gefur á bátinn um stund í sjávarútvegi með skertum heildarafla. Hagstofan segir að á tólf mánaða tímabilinu frá júlí 2023 til júní 2024 hafi heildaraflinn verið tæplega 1,1 milljón tonn sem er 24% samdráttur frá sama tólf mánaða tímabili ári fyrr. Helsta ástæðan var loðnubrestur sem reynir á hér fyrir austan. Þeir sem sífellt tala niður sjávarútveginn mættu hafa í huga þjóðhagslegt mikilvægi sterkra fyrirtækja sem geta tekið slíkt högg sem loðnubresturinn reynist.

Samkeppnishæfni krefst sterkari innviða


Að sama skapi þarf Fjarðabyggð að huga að innviðum, berjast fyrir samgöngubótum, orkuuppbyggingu og ekki síst fjarskiptum. Núverið birti fjarskiptaráðherra yfirlit yfir heimili sem eru ótengd ljósleiðara á Íslandi. Af fimm þúsund heimilisföngum ótengdum ljósleiðara í landinu er fimmta hvert í Fjarðabyggð eða alls 1012. Sú staða kallar á sértækar aðgerðir og átak á þessu sviði til að tryggja samkeppnishæfni sveitarfélagsins.

Verkefni stjórnmálamanna okkar er áfram að stuðla að vexti öflugs atvinnulífs sem skilar háum heildartekjum íbúa. Það verður einungis gert með því að umgangast með gætni annarra manna fé og tryggja athafnafrelsi. Frjálst fólk framleiðir meira. Líka hér eystra.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.