Ár samheldni og samstöðu

Árið 2021 er á enda og hvílíkt ár! Við hófum árið í skugga hamfara og heimfaraldurs. Austfirðingar sýndu í verki hversu dýrmætt Austfirskt samfélag er og hversu samheldin við getum verið þegar erfiðleikar steðja að. Verkefnin í fjórðungnum eru mörg og ærin og mikilvægt að gefa ekkert eftir í því að fylgja þeim eftir og sækja fram.

Sveitarfélögin á Austurlandi eru fjölbreytt, ólík innbyrðis en öll mikilvæg hver á sinn hátt. Öflugt atvinnulíf, samgöngur, menntamál og menning eru verkefni sem öll samfélög þurfa á að halda til að til að geta vaxið og dafnað. Því miður er það nú samt þannig að sú þjónusta sem ætluð er öllum Íslendingum er í langflestum tilfellum staðsett í höfuðborginni. Landspítali, Háskóli Íslands, Þjóðarbókhlaða, Alþingi, Hæstiréttur, Þjóðleikhús, Harpa svo og höfuðstöðvar flestra stofnanna ríkisins. Það er í sjálfu sér eðlilegt, en breytir ekki þeirri staðreynd að stór hluti þjóðarinnar hefur takmarkað aðgengi að þessari mikilvægu þjónustu sem á að vera aðgengileg okkur öllum.

Sú staðreynd undirstrikar mikilvægi þess að tryggja að rödd landsbyggðarinnar fái að heyrast við ákvarðanatöku, að Austurland eigi sér málsvara við borðið svo að okkar mikilvægu forgangsmálum sé fylgt eftir af festu.

Nú rétt fyrir áramót lauk vinnu við fjárlög næsta árs og verkefni okkar landsbyggðarþingmanna er ekki síst að standa vörð um þau fjölbreyttu verkefni og áskoranir sem bíða í kjördæminu. Því ber að fagna að framlög til Skaftfells, Sköpunarmiðstöðvar og Tækniminjasafnsins voru tryggð í þeirri vinnu. Náttúrustofum var tryggt fé til áframhaldandi starfsemi. Þegar horft er til menntamála er ljóst að Austurland hefur setið eftir og því gríðarlega mikilvægt að gefa ekkert eftir í þeim efnum. Mörg mikilvæg verkefni eru í farvatninu varðandi háskólanám og má þar nefna spennandi samstarf við University of Highlands and Islands í Skotlandi. Austurbrú er sú stofnun sem hefur haldið utan um háskólamenntun í fjórðungnum. Það skýtur skökku við að stofnunin þurfi á hverju ári að leita á náðir fjárlaganefndar til að fjármagna öll sín mikilvægu verkefni. Verkefni sem skipta atvinnulífið á svæðinu miklu máli, því með auknum umsvifum og tæknibreytingum í atvinnulífinu, þarf menntunarstig íbúa að þróast í takt við það. Þetta þarf að endurskoða.

Kæru Austfirðingar, mig langar að nota þetta tækifæri til þess að þakka þann ómetanlega stuðning sem ég hef fengið og það traust sem þið hafið sýnt mér til að starfa fyrir ykkur, fyrst í sveitarstjórn Múlaþings og nú sem þingmaður Norðausturkjördæmis. Nú styttist í enn aðrar kosningar, sveitarstjórnarkosningar 14. maí og þar vona ég innilega hugsjónir VG fái áfram brautargengi hér á Austurlandi. Félagslegt réttlæti, náttúruvernd og loftslagsmál, kvenfrelsi og friðarstefna er grunnurinn að góðu samfélagi. Ég hlakka til að vinna fyrir ykkur áfram með þær hugsjónir að leiðarljósi á komandi árum.

Gleðilegt ár kæru Austfirðingar og megi árið 2022 verða okkur öllum til gæfu og gleði.

Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.