Atvinnulíf á Austurlandi

Eitt af stóru málunum fyrir komandi kosningar eru málefni atvinnulífsins. Umhverfi atvinnulífsins er sífellt að breytast og tækniframfarir og nýjungar að ryðja sér til rúms með nýjum störfum á meðan önnur störf hverfa á brott eða breytast. Mikilvægt er að atvinnuuppbygging á landsbyggðunum sé hluti af þeirri öru þróun og uppbyggingu sem á sér stað í atvinnulífinu.

Uppbygging á Austurlandi

Nýting vatnsafls norðan Vatnajökuls og uppbygging Kárahnjúkavirkjunar til atvinnuuppbyggingar fyrir Austurland var risastórt byggðaþróunarverkefni sem miðaði að því að sporna gegn fólksfækkun á svæðinu og stuðla að fjölbreyttara atvinnu- og mannlífi. Það er engum blöðum um það að fletta að bygging virkjunarinnar og álver Alcoa Fjarðaáls hafa haft gríðarlega mikil áhrif á allt Austurland. Álverið er ríflega 500 manna fjölbreyttur og vel launaður vinnustaður en auk þess hafa skapast fjöldi afleiddra starfa samhliða starfsemi álversins. Starfsemi Fjarðaáls hefur á liðnum árum laðað að sér starfsfólk með fjölbreytta menntun og fjöldi fyrirtækja orðið til á svæðinu sem þjónusta álverið.

Gleymum ekki landsbyggðunum

Atvinnuuppbygging á landsbyggðunum er gríðarlega mikilvæg og gerist ekki af sjálfu sér. Ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers í Reyðarfirði var umdeild og djörf ákvörðun á sínum tíma en skilaði fjórðungnum vopnum sínum aftur eftir áralanga stöðnun í atvinnulífi og mikla fólksfækkun. Miklum framkvæmdum og atvinnuuppbyggingu þarf hins vegar að hlúa að og mikilvægt er að fylgjast vel með þeirri þróun sem er á hverjum tíma í þjóðfélaginu. Hefðbundnum störfum fækkar jafnt og þétt samhliða örri tækniþróun en um leið verða til ný og fjölbreyttari störf. Þessari þróun þarf að fylgja eftir með menntun og stuðningi. Mikilvægt er að styðja við nýsköpunarverkefni og sprotafyrirtæki á landsbyggðunum samhliða öflugri atvinnuuppbyggingu. Annar gríðarlega mikilvægur þáttur við að halda áfram uppbyggingu atvinnulífs og samfélags á Austurlandi er menntun á háskólastigi. Háskólanám er mikilvægur þáttur í að auka fjölbreytni, bæði í atvinnulífi og samfélaginu öllu, en er ekki síður mikilvægt til að laða að fjölbreyttan hóp fólks til Austurlands.

Mikilvægi fjölbreyttra starfa

Viðreisn leggur mikla áherslu á uppbyggingu atvinnulífs um allt land þar sem nýsköpun og stuðningur við sprotafyrirtæki mun stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum. Við þurfum fjölbreytt atvinnulíf samhliða undirstöðu útflutningsgreinum, álframleiðslu og sjávarútvegi, sem svo sannarlega eru kjölfestan í samfélaginu og hafa skapað jarðveg grósku sem þarf að virkja til uppbyggingar frekari atvinnutækifæra. Sitjum ekki eftir í þeirri öru þróun sem á sér stað í atvinnulífinu, tökum þátt, virkjum hugvit fólks, látum drauma rætast og gleymum því ekki að fjölbreyttara atvinnulífi fylgir fjölbreyttari þjónusta í samfélaginu.

Höfundur skipar 1. sæti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.