Atvinnuþróun á Austurlandi

Í dag var fundur um eflingu atvinnuþróunar á Austurlandi. Þeim skilaboðum að frá Austurlandi komi tæpur einn fjórði af heildarverðmætum vöruútflutnings hefur verið komið rækilega á dagskrá af SSA á undanförnum misserum. Spurningin er hvort stefnumótun sveitarfélaga á Austurlandi hafi einkennst um of af kröfum atvinnulífsins, nú síðast í kringum innreið fiskeldisfyrirtækja í fjórðunginn.

Flest atvinnuuppbygging á svæðinu hefur kallað eftir fleiri líkamlega krefjandi karlastörfum, og í raun bara meira af því sama. Áhersla hefur verið lögð á nám í þágu atvinnulífsins, nám í þágu þungaiðnaðar, stóriðjuskólann, fisktækniskólann og jafnvel börnum á grunnskólaaldri verið boðið upp á unglingavinnu í tengslum við fiskeldið.

Eðli málsins samkvæmt eru laun á Austurlandi há, samanber hinar háu útflutningstekjur sem skapast í fjórðungnum. Samkvæmt gögnum frá Byggðastofnun voru atvinnutekjur karla 35% hærri en kvenna þegar horft er til tekna eftir kyni á hvern íbúa á Íslandi. Mestur munur atvinnutekna karla og kvenna er á Austurlandi 67,2%. Karlar á Austurlandi voru með hæstu atvinnutekjur allra Íslendinga. Í sömu gögnum kemur fram að næst minnst aukning atvinnutekna frá 2012 til 2021 hafi verið á Austurlandi eða 34%. Af þessu má ráða að atvinnutekjur á Austurlandi hafi verið háar síðasta áratuginn, sér í lagi meðal karla þó að kynbræður þeirra í öðrum landshlutum sæki á.

Þessar tölur eru á yfirborðinu gott mál fyrir Austurland en þær eru líka birtingarmynd kynbundinnar misskiptingar verðmæta í samfélaginu og segja sína sögu um stöðu atvinnumála á Austurlandi. Tölurnar gefa vísbendingu um ákveðna stöðnun í atvinnuþróun á svæðinu enda hvatinn til að gera eitthvað annað en að vinna í þungaiðnaði, fyrir stórútgerðina eða fiskeldið lítill. Kynjaskiptur vinnumarkaður hægir á kynjajafnrétti og sú staðreynd að Austurland kunni að vera eftirbátur annara landshluta í þeim efnum er alvarlegt mál.

Það er ábyrgðarhluti okkar allra að berjast gegn rótgróinni kynjaskiptingu, ekki síst á landsbyggðinni þar sem atvinnulífið er gjarna einsleitt. Barátta gegn kynskiptum vinnumarkaði er mikilvægur hluti af jafnréttisbaráttunni.

Allir landshlutar, ekki síst Austurland, þurfa á því að halda að jafna hlut kynjanna. Eitt útilokar nefnilega ekki annað, há laun og kynjafnrétti geta því vel farið saman og fjölgar tækifærum til uppbyggingar fjölbreyttara samfélags.

Til lengri tíma er mikilvægt að Austfirðingar verði ekki fórnarlömb eigin velgengni með of fá egg, öll í sömu körfu. Ég tel að stjórnvöld á svæðinu og stórfyrirtæki þurfi að beina sjónum að framtíðinni, styðja við hugverkaiðnað, skapandi greinar og jafna tækifæri kynjanna til þess að fá vel launuð störf við hæfi fyrir öll á vinnumarkaði. Það er ábyrgðarhlutur stjórnvalda að hafa augun alltaf opin þegar kemur að jafnréttismálum því meðan launamunur kynjanna er hátt í 70% á Austurlandi verður Austurland ekki eftirsóknarvert búsetusvæði og erfitt verður að byggja upp heilbrigt samfélag.

Ég hvet því bæði starfandi sveitarstjórnir sem og stórfyrirtæki, hvort heldur þau sem eru rótgróin í samfélaginu eða þau sem eru að hasla sér völl á Austurlandi, að standa saman gegn misskiptingu og gera betur í kynjajafnréttismálum.

Höfundur er þingmaður VG í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.