Aukin upplýsingatækni mun styrkja Fjarðabyggð
Með sameiningu sveitarfélaga og tæknilegri þróun hefur hlutverk bæjarskrifstofa breyst mikið. Tækninni fleygir fram og gefur kost á skilvirkari og betri þjónustu. Lýðræði eflist með auknu upplýsingaflæði.Þar sem áður myndaðist biðröð við afgreiðslu leyfa og annarra umsókna má sjá auð biðrými. Ástæðan er einföld, í auknum mæli eru samskipti við sveitarfélög leyst á rafrænan hátt. Við sameiningu sveitarfélaga hefur fjarlægð við bæjarskrifstofur orðið mun meiri í bæjarkjörnum þar sem skrifstofan flutti burt. Oft á tíðum hefur verið sársaukafullt að horfa á eftir bæjarskrifstofunni og það orðið bitbein sameiningarviðræðna.
Með rafrænni þróun eykst möguleiki á að færa þjónustuna aftur nær íbúunum en mikið verk er fyrir höndum að gera hana skilvirkari, aðgengilegri og víðtækari. Þá er einnig þörf á því að bæta úr upplýsingaflæði til íbúa með rafrænum hætti.
Rafrænar lausnir
Í Fjarðarbyggð hafa verið stigin mikilvæg skref til rafrænnar stjórnsýslu. Í dag er hægt að leysa ýmis samskipti sveitarfélaga með rafrænum hætti. En þörf er á því að stíga enn stærri skref og nútímavæða þjónustuna með auknu upplýsingaflæði. Aðgengi að upplýsingum, umsóknum og möguleiki á almennri afgreiðslu á að vera aðgengilegur á einum stað.
Verkefni á borð við skóladagatöl, umsóknir, álagningarseðla, afgreiðslur, umsagnir, akstursbeiðnir, félagsþjónustu, bókhald sveitarfélagsins og svo mætti lengi telja er hæglega hægt að leysa með rafrænum lausnum. Það eykur skilvirkni og bætir veitta þjónustu.
Fjarðabyggðarappið
Rafræn þróun getur fært okkur bæjarskrifstofuna í símann með smáforriti þar sem allar upplýsingar og þjónusta er aðgengileg. Þetta auðveldar ekki bara íbúum í afgreiðslu mála heldur gefur þetta einnig bæjarfélaginu og stofnunum þess aukið tækifæri til að liðka samskipti við bæjarbúa.
Smáforrit eru orðin daglegur hlutur í lífi okkar. Með aðstoð smáforrita erum við flest farin að nýta bankaþjónustu, leggja ökutækjum, sækja líkamsrækt o.fl. Bæjarskrifstofan á að vera liður í þessum hlekk. Skoða á kosti þess að nýta slík smáforrit til að hafa öll samskipti við sveitarfélagið á einum og greiðum stað. Þar væri hægt að nálgast flest samskiptamál við bæjarfélagið, hvort sem það er í tengslum við skólastarf, álagningarseðla eða afgreiðslur mála s.s. ábendingar vegna snjómoksturs eða annað. Í slíku smáforriti væri hægt að smella mynd af því sem þarfnaðist úrlausnar og senda heim, forritið gripi staðsetningar og tilkynningar gætu borist um leið og hreyfing yrði á málinu. Þannig eykst hagræði fyrir íbúa og stjórnsýslu. Á sama stað væru allar upplýsingar aðgengilegar hvort sem það snýr að fjármálum sveitarfélagsins, ákvarðanatöku, almenningssamgöngum eða tímasetningar sorphirðu.
Með Fjarðabyggðarappinu skapast hagræði fyrir alla aðila á betri þjónustu, auknu upplýsingaflæði, meiri lýðræðisvitund og skilvirkari samskipti við íbúana. Eigum við ekki að stíga það skref inn í framtíðina?
Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og varaþingmaður.