Austur

Magnús Ingólfsson, fyrrum framhaldsskólakennari, gaf í dag út sína fyrstu ljóðabók, Tvíæringur tregans, í tilefni af 75 ára afmæli sínu.

Magnús er tengdur Austurlandi, var sjö sumur í sveit í Brekku í Hróarstungu og heimsækir landshlutann á hverju sumri.

Ást hans á landshlutanum má lesa út úr meðfylgjandi ljóði, sem hann kallar „Austur“ og er í ljóðabókinni.

Austur


Dyrfjöll í dimmbláum skugga
dagur í austrinu rís

dagrenning guðar á glugga
með geislum frá Paradís

Fljótið man tímana tvenna
tærara fyrr á tíð

er Jökla fékk frjáls að renna
og fossa um Dal og Hlíð

í skógunum framtíð er falin
fagurt er Austurland

við ána og djúpan dalinn
en dapurt við eyðisand

því Askja varð örlagavaldur
í engu hlífði hún þeim

sem vetrarvindurinn kaldur
bar vonir um Vesturheim

en ein er mín albesta minning
mig dreymir svo endalaust

um heiðanna hlýjasta synning
og hreindýr á ferli um haust

og þá fær lífið sitt leiði
við ljúfasta sæluvind

og þá er ei harmur í heiði
og hamingjusöm hver kind

er hug minn hættir að dreyma
horfin mér dagrenning

þá Brekka mun heita mitt heima
og Hérað og Múlaþing

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.