Austurland er land tækifæranna!

Austurland er land tækifæranna eins og við höfum svo oft sé ritað í opinberum gögnum. Ég er reyndar alveg sammála þessu ágæta slagorði.

Svæðið er ríkt af auðlindum bæði til sjávar og sveita. Út af Austfjörðum má finna gjöful fiskimið, þar sem fjölbreyttar, verðmætar fisktegundir veiðast. Landmikið dreifbýli, sem hentar vel fyrir fjölbreyttan landbúnað, og víðfeðm náttúra, sem dregur til sín útivistarfólk og náttúruunnendur. Fólk sem nýtir sér þjónustu aðila meðal annars í veitinga- og gistihúsarekstri. Þá má finna laxveiðiá sem áður var mórauð jökulá, sem framsýnir bændur hafa ræktað upp.

Hagstæð skilyrði til atvinnusköpunar er mikilvægur þáttur í uppbyggingu á traustu samfélagi. Til þess að samfélag byggist upp og eflist, þurfa innviðir þess að vera traustir. Samkeppnin er hörð um íbúa og vinnuafl. Til þess að sigra í slíkri samkeppni þurfa innviðir sveitarfélagsins ávallt að vera sambærilegir eða skrefinu framar en hjá samkeppnisaðilanum.

Þegar fólk og þá sérstaklega fjölskyldufólk velur sér búsetu, lítur það til þess hvernig staðið er að þjónustu við börn og unglinga. Í þeim tilfellum er mikilvægt að okkar sveitarfélag verði ávallt rekið með metnaðarfulla stefnu í skóla-íþrótta- og æskulýðsmálum. Skipuleggja þarf skóla- íþrótta- og æskulýðsstarf þannig að þjónustan nýtist börnum og unglingum hvort sem þau búa í dreifbýli eða þéttbýli.

Til þess að standast samkeppni um fyrirtæki og fólk spila samgöngur stór hlutverk. Mikilvægt er að þjóðvegakerfið standist kröfur hvað varðar burðargetu. Flugvöllur sem þjónað getur millilandaflugi með farþega- og vöruflutninga er krafa nútímans og öruggt raforkukerfi.

Umhverfi og umhverfismál skipta fólk og fyrirtæki sífellt meira máli. Þáttur í því er að byggja upp göngustígakerfi innan þéttbýlis sem utan, standa vörð sögulegar byggingar og náttúrminjar. Þá má ekki gleyma mikilvægum þætti sem er almenn umhirða og umgengni um sveitarfélagið okkar. Vel hirt sveitarfélag hefur aðdráttarafl fyrir gesti og ekki síst á þá sem leita sér að framtíðar búsetu. Því er mikilvægt að við tökum þau mál föstum tökum.

Höfundur sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.