Austurland og lífsgarðyrkjan

Austurland. Mitt fagra Austurland. Í hringiðu atburðanna en þó svo órafjarri öllum alheimslegum  nöflum. Þjakað af alheimskreppu, en þó ofurlítið til hliðar við hana. Og fólkið sem fjórðunginn byggir lætur ekki deigan síga, þó efnahagslega þurfi að venda seglum um stund; það heldur ótrautt áfram að gera sitt besta og leggja til samfélagsins.

 

Það er eftirtektarvert hversu margt er að gerast í fjórðungnum á sviði hugsunar og sköpunar. Fólk sem knúið er áfram af löngun til að fara yfir hefðbundnar línur og viðtekin sannindi lætur til skarar skríða með nýjar hugmyndir og aflar þeim brautargengis í kompaníi við stofnanir, fyrirtæki eða aðra einstaklinga. Þetta er að gerast á sviði mennta og vísinda, lista, iðnaðar, fjölmenningar og starfsendurhæfingar í víðu samhengi. Við sjáum austfirska afburðanemendur blómstra í skólum heima og heiman og vonumst til þess að þeir snúi síðar heim og láti svæðið njóta góðs af þekkingu sinni. Alls staðar kraumar í hugmyndapottum svo út úr vellur og mér virðist sem ýmsir sprotar séu nú að róta sig og gætu dafnað, sé vel að þeim hlúð. Þetta er allt saman nokkurs konar lífsgarðyrkja; fræ, jarðvegur, vökvun og næring, rétt umhverfi, stuðningur í uppvextinum og loks eitthvað fullblómstrandi og sjálfstætt sem getur af sér ný fræ, nýja sprota...

  

Við leggjum á mið sumarskemmtana, enda ótvírætt hollustusamlegt og upplífgandi að skemmta öðrum og sjálfum sér. Bros og hlátur verða seint metin að verðleikum. Jazzhátíð í fullum gangi, norræn vinabæjarheimsókn á Héraði og UÍA-mót í uppsiglingu, Seyðfirðingar á hvolfi við að undirbúa þá stórmerkilegu menningarhátíð ungs fólks; LungA, sem getið hefur sér góðs orðs hér heima og erlendis fyrir feiknagóða dagskrá. Franskir dagar, norskir dagar, Vopnafjarðardagar, Bræðslan og Álfaborgarséns, Á Seyði, Eistnaflug og Neistaflug, Ormsteiti, gönguferðir, víðavangshlaup og sýningar um allt; hátíðir eru í nærfellt öllum þéttbýliskjörnum Austurlands í sumar. Og gróandinn í hámarki.

  

Svona á þetta að vera.

  

Með kveðju og sólskinsbrosi,

  

Steinunn Ásmundsdóttir

 

(Leiðari Austurgluggans 26.06.2009)

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.