Bæjarskrifstofuna heim

Það felast tækifæri fyrir okkur á landsbyggðinni að byggja upp öfluga upplýsingatækni. Faraldurinn kenndi mörgum okkar að sinna í ríkara mæli störfum að heiman. Veiran hefur þannig stutt við það sem landsbyggðin hefur talað lengi fyrir að staðsetning skiptir æ minna máli með tilkomu net- og tæknivæðingar.

Stafræn þróun hefur fært okkur skilvirkari stjórnsýslu og dregið úr mikilvægi staðsetningar. Staðsetning skiptir æ minna máli og störf eru nú auglýst án staðsetningar.

Nýverið steig Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, það framfaraskref að tilkynna að næstum öll störf ráðuneytisins yrðu auglýst án staðsetningar. Stafræn þróun hefur gert okkur kleift að stíga þetta mikilvæga skref og ráðherrann hefur svarað kalli sveitarstjórnarmanna landsbyggðanna sem lengi hafa kallað eftir þessari þróun. Við í sveitarstjórnum eigum að feta í sömu spor. Sameinuð sveitarfélög eins og Fjarðabyggð sem ná yfir fleiri en einn byggðakjarna hafa byggt upp miðlæga stjórnsýslueiningu þar sem starfsfólk skrifstofunnar kemur saman. Upplýsingatæknin gerir það að verkum að við getum í auknum mæli haft störf innan Fjarðabyggðar óháð staðsetningu.

Það dregur úr þörfinni fyrir stór stjórnsýsluhús eða ráðhús þar sem valmöguleikar fyrir færanlegum skrifstofum innan mannvirkja sveitarfélaganna og heimavinnu hafa aukist á undanförnum árum. Nú ætti að vera komið að þeim tímapunkti að yfirbyggingin minnki, frelsi starfsfólks aukist og vonandi aukið hagræði.

Innan Fjarðabyggðar eru mannvirki í eigu þess og notkun sem mætti nýta í auknum mæli. Þá hefur Múlinn í Neskaupstað gefið góða raun og sannað gildi sitt sem skrifstofu- og aðstöðuklasi fyrir fjölbreytta starfsemi. Við eigum að horfa meira til slíkra nýsköpunarsetra og sameiginlegrar skrifstofuaðstöðu þeirra sem sinna störfum án staðsetningar.

Lykillinn er skýr stefna sveitarfélags um uppbyggingu stafrænnar þróunar. Í upplýsingabyltingunni felst byggðafesta framtíðarinnar. Færum ráðhúsið og stjórnarráðið nær fólkinu.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og varaþingmaður.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.