Besti kosturinn!

Lýðræðið

Við búum í lýðræðisríki þar sem afl atkvæða ræður og það ber að virða. Þess vegna búum við við það að hér á landi eru ríkisstjórnir alltaf samsteypustjórnir tveggja eða fleiri flokka. Þess vegna er það þannig að flokkur sem situr í ríkisstjórn getur aldrei reknað með að fá öllum sínum markmiðum framgengt jafnvel þó hann hafi forsætisráðuneytið. Þetta er staðreynd sem ýmsir, ótrúlegt en satt, virðast ekki gera sér grein fyrir.

Nú síðustu 7 ár höfum við búið við samsteypustjórn þriggja ólíkra flokka undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Til þeirrar ríkisstjórnar var stofnað eftir aðrar árangurslausar tilraunir til stjórnarmyndunar, þar á meðal vinstristjórnar. Það er ástæða til að rifja þetta upp nú þegar verið er að væna Katrínu, afar ómaklega, um svik og dugleysi í sínum verkum sem forsætisráðherra. Það er mín skoðun að hún hafi sýnt mikla djörfung þegar hún tók að sér verkstjórn í þessari ríkisstjórn og hún hefur án nokkurs vafa sett sitt mark á fjölda ákvarðana sem teknar hafa verið við ríkisstjórnarborðið og þær hefðu margar hverjar verið með öðrum hætti hefði hennar ekki notið við. En hún var vissulega ekki einráð.

Einstaklingurinn

Ég hef ekki verið pólitískur samherji Katrínar, en engu að síður hefur framganga hennar verið þannig að ég hef alltaf borið virðingu fyrir hennar störfum. Ég kann vel að meta hennar mannkosti, sem fjöldi manna sem starfað hafa með henni um lengri eða skemmri tíma, hafa borið vitni um. Það segir kannski meira en nokkuð annað hve margir sem starfað hafa með Katrínu á hinum ýmsu sviðum og við margvísleg verkefni hafa lýst yfir stuðningi við hana nú þegar hún hefur boðið sig fram til forsetaembættisins. Það segir sína sögu um manneskjuna.

Mitt val

Fljótlega eftir að Katrín gaf kost á sér ákvað ég að hún væri minn valkostur. Því meira sem ég sé af frambjóðendum í hinum ýmsu umræðu og viðtals þáttum nú fyrir forsetakosningarnar því meira styrkist sú skoðun mín að Katrín Jakobsdóttir sé lang besti valkosturinn meðal þeirra frambjóðenda sem við höfum um að velja. Sú grýla sem reynt hefur verið að magna upp um að hennar pólitíska fortíð muni rýra kosti hennar sem forseta tel ég alranga, þvert á móti hefur hún fyrir bragðið yfirburða þekkingu á forsetaembættinu, gangverki íslensks samfélags sem og heimsmálunum og víðtækt tengslanet meðal ráðamanna víða um heim. Það mun nýtast Íslandi vel verði hún kjörinn forseti.

Nú horfum við fram á veginn og þá blasir við hversu mikilvægt það er fyrir okkar litlu þjóð að hafna ekki þeim möguleikum sem hin mikla reynsla og mörgu kostir Katrínar Jakobsdóttur gætu fært okkur. Ég ætla að leggja mitt að mörkum til að þjóðin fái notið þessa og mun kjósa Katrínu þann 1. júní n.k. Ég hvet þig lesandi góður til að gera hið sama. Annað væri okkar tap.

Vigdís Sveinbjörnsdóttir
Egilsstöðum

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.