Birkir Jón sigraði í NA-kjördæmi
Birkir Jón Jónsson, alþingismaður, sigraði í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í dag. Fimmtán frambjóðendur gáfu kost á sér til framboðs í kjör um átta efstu sæti framboðslistans vegna alþingiskosninganna 25. apríl 2009. Alls greiddu 928 atkvæði.
Birkir Jón hlaut 505 atkvæði í fyrsta sæti. Höskuldur Þórhallsson hlaut 647 atkvæði í 1.-2. sætið.
Kosið var um sætin á aukakjördæmisþingi sem haldið var á Egilsstöðum í dag en utankjörfundaratkvæðagreiðsla fór einnig fram á fjölmörgum stöðum í kjördæminu í gær og í fyrradag. Hulda Aðalbjarnardóttir menningar- og fræðslufulltrúi Norðurþings varð í þriðja sæti en hún hlaut 509 atkvæði í 1.-4. sæti. Sigfús Karlsson, framkvæmdastjóri skipar fjórða sæti listans, hann hlaut 304 atkvæði í 1.-4. sæti.
1. Birkir Jón Jónsson, alþingismaður, með 505 atkvæði í 1. sæti.
2. Höskuldur Þór Þórhallsson, alþingismaður, með 647 atkvæði í 1.-2. sæti.
3. Huld Aðalbjarnardóttir menningar-og fræðslufulltrúi Norðurþings, með 509 atkvæði í 1.-3. sæti.
4. Sigfús Karlsson, framkvæmdastjóri, með 340 atkvæði í 1.-4. sæti.
5. Svanhvít Aradóttir, forstöðuþroskaþjálfi, með 448 atkvæði í 1.-5. sæti.
6. Hallveig Björk Höskuldsdóttir, leiðtogi í málmvinnslu Alcoa, með 463 atkvæði í 1.-6. sæti.
7. Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi og tamningamaður, með 497 atkvæði í 1.-7. sæti.
8. Anna Kolbrún Árnadóttir, sérkennari,með 397 atkvæði í 1.-8. sæti.
Verið er að kynna niðurstöður prófkjörsins á kjördæmisþinginu og í framhaldinu verður 20 manna framboðslisti kynntur flokksmönnum.
Framsóknarflokkurinn fékk þrjá menn kjörna í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum vorið 2007.