Blessuð heiðlóan er komin
Vorboðinn ljúfi er kominn til landsins. Fyrsta heiðlóan sást ein á flugi yfir Einarslundi á Höfn í morgun og ljóðaði í loftinu um vorkomu með sínu yndæla dirrindíi. Blessaðar lóurnar taka því senn að flykkjast til landsins. Lóan á Höfn er nokkuð snemma á ferðinni, því að jafnaði koma fyrstu fuglarnir á bilinu 20. til 31. mars.
Á vefnum www.fuglar.is segir frá því að margir skógarþrestir hafi komið til landsins síðustu nótt. Mörg hundruð þrestir hafa sést á Höfn og einnig hafa þeir borið niður á Jökuldal og Húsavík. Þá streyma álftir nú til landsins og fylla loftið sínu hása kvaki.