Brjálað veður á Austurlandi

Björgunarsveitir á Austurlandi hafa margar átt annríkt frá því í nótt. Færð er mjög breytileg innan þéttbýlis. Þannig hefur verið mjög þungfært innanbæjar á Vopnafirði og Eskifirði, en ekki sérstaklega í Neskaupstað eða á Egilsstöðum. Fjallvegir eru alls ófærir. Kona í barnsnauð lenti í hrakningum á Oddsskarði í nótt og foktjón er nokkurt, enda hefur verið gríðarlega hvasst og vindur farið upp í 48 m/sek þegar verst var. Veður er lítið farið að ganga niður.

hreksstaalei_vefur.jpg

Björgunarsveitirnar Gerpir frá Neskaupstað og Brimrún frá Eskifirði voru kallaðar út um klukkan 4:30 í nótt vegna konu sem sat föst í bíl á  Oddskarði, Eskifjarðarmegin, en hún var á leið á sjúkrahús til að fæða barn. Samkvæmt upplýsingum Slysavarnafélagsins Landsbjargar var björgunarsveitarbíll sendur frá Eskifirði með lækni og var hann kominn að bíl konunnar um klukkustund síðar. Var ekið með hana áleiðis til Neskaupstaðar og við Háhlíðarhorn mætti björgunarsveitin Gerpir þeim með tvo björgunarsveitabíla, sem í voru læknir og ljósmóðir. Þá voru snjóplógur og snjótroðari frá skíðasvæðinu á Neskaupstað með í ferð.

Færð var afar slæm og var snjótroðarinn nýttur til að troða svæði í kringum veginn þannig að hægt væri að snúa bílunum við. Ekki vildi hins vegar vetur til en svo að snjóplógurinn festist og þurfti að nýta troðarann til að losa hann.  Veður var afleitt á svæðinu en vindhraði var um 48 m/sek og allar aðstæður mjög erfiðar.

Í Oddsskarðsgöngum var konan færð yfir í bíl frá Gerpi og ekið með hana á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Þangað kom hún klukkan 7:15 í morgun og lítil stúlka fæddist klukkan 8:15. Heilsast þeim mæðgum vel.

  

Foktjón hjá Barra

  

Vindhraðinn fór upp í 46 metra á sekúndu í nótt þegar plötur fuku af gróðurhúsum gróðrarstöðvarinnar Barra á Valgerðarstöðum í Fellum. Þakplötur úr plasti fuku af báðum gróðurhúsunum, sem þar eru, þrjár af öðru og 14 af hinu. Björgunarsveit var kölluð út vegna foksins.

Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri Barra, sagði að veðrið hefði skollið á um klukkan hálf fjögur í nótt. Samkvæmt veðurmæli á stöðinni hefði vindhraðinn farið upp í 46 metra á sekúndu og ekki farið undir 32 metra á sekúndu í um þrjár stundir.

„Það stenst ekkert svona veður," sagði Skúli. Plötur fuku af gróðurhúsunum í febrúar á síðasta ári þegar þau voru nýbyggð. Í kjölfarið voru húsin styrkt og áttu að þola „venjuleg óveður".

Skúli sagði, að um 10% af plötunum hefðu fokið af öðru húsinu. Nýlega verið plantað trjáplöntum þar  en vonast væri til að græðlingarnir hefðu ekki skemmst. Áætlaði Skúli að tjónið næmi um 1,5 milljónum króna.

  Álversstarfsmenn komust ekki í vinnuna   

 Af þeim 70 framleiðslustarfsmönnum og iðnaðarmönnum sem áttu að mæta til vinnu í morgun í álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði komust aðeins tuttugu til vinnu. Hinir 50 eru veðurtepptir og er þetta versta ástand sem komið hefur upp vegna ófærðar síðan álverið hóf framleiðslu fyrir um tveimur árum síðan. Bregðast varð við með því að kalla út allan tiltækan mannskap á Reyðarfirði en auk þess héldu sumir starfsmenn áfram vinnu eftir næturvakt. Ennfremur er unnið að því að flytja mannskap frá Eskifirði með sérútbúnum jeppum. Þeir starfsmenn sem komnir eru af vaktinni og eiga heima annarsstaðar en á Reyðarfirði eru nú komnir á hótel.

Álversfólk er ekki hið eina sem ekki hefur komist í vinnu. Víða hefur fólk haldið kyrru fyrir heima hjá sér vegna veðursins og þar sem skólastarf liggur niðri hefur fjöldi foreldra orðið að taka sér frí í dag.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.