Brýnt að skilgreina sérstöðu Austurlands til framtíðar
Vaxtarsamningi fyrir Austurland lýkur í lok þessa árs og fer þá í endurnýjun. Á milli 20 og 30 varanleg störf hafa orðið til fyrir atbeina samnginsins. Þau eru flest fyrir háskólamenntaða einstaklinga. Iðnaðarráðuneytið hefur gefið til kynna að við endurnýjun Vaxtarsamnings verði lögð aukin áhersla á sérhæfingu svæða til framtíðar. Austfirðingar þurfa því að skilgreina hver sérhæfing fjórðungsins á að vera miðað við aðra landshluta. Gera má ráð fyrir að í næsta vaxtarsamningi verði aukin áhersla á að ýta undir rannsóknir og nýsköpun í málum sem tengjast slíkri sérhæfingu.
Vaxtarsamningar eru ný hugmyndafræði sem byggir á samningum milli landshluta og iðnaðarráðuneytisins um að byggja upp samstarf innan svæða í ákveðnum greinum. Gengið er út frá klasahugtakinu, þ.e. þegar aðilar sameinast um að vinna að ákveðnum markmiðum. Leitast er við að kenna fyrirtækjum og einstaklingum að vinna með rannsókna- og háskólaumhverfinu, með stuðningi stoðkerfisins (triple helix).
Björk Sigurgeirsdóttir er framkvæmdastjóri Vaxtarsamnings Austurlands.
,,Það eru ákveðin atriði sem koma í hugann þegar hugsað er til sérstöðu fjórðungsins,“ segir Björk. ,,Aðeins hér á Austurlandi eru hreindýr, hér eru miklir skógar og ýmislegt fleira getur markað sérstöðu okkar. Það er afar mikilvægt að heimamenn móti stefnuna og um það ríki sátt að við viljum byggja undir svæðisbundna sérhæfingu.“
Hjá Þróunarfélaginu er stöðugt í gangi greining á atvinnulífi fjórðungsins og nú verður farið í stefnumótunarvinnu varðandi Vaxtarsamninginn. Opnir fundir verða haldnir víðs vegar um fjórðunginn, þar sem kallað verður eftir sjónarmiðum og áherslum heimafólks. Björk segist vona að unnt verði að fá Samband sveitarfélaga á Austurlandi með í þessa vinnu, þannig að ekki verði aðeins um að ræða stefnumótum fyrir Vaxtarsamninginn heldur einnig fyrir fjórðunginn í heild.
,,Nú munum við frekar hugsa um hvar við viljum standa eftir tvo til þrjá áratugi í stað þess að einblína á daginn í dag. Við höfum verið að byggja undir grunngerð, til dæmis í ferðaþjónustu, höfum stutt við uppbyggingu á samstarfi og fæðingu klasasamstarfs. Við höfum því verið á frumstigum í flestum verkefnum Vaxtarsamningsins fram að þessu. Eftir nokkur ár viljum við að þetta svæði sé viðurkennt sem þekkingar- og uppbyggingarsvæði á ákveðnum sviðum. Þau svið þurfum við að skilgreina til að öll vinna Vaxtarsamningsins geti miðað í þá átt, auk annars þróunarstarfs.“
Markverður árangur
Björk hefur undanfarið unnið að viðamikilli skýrslu um verkefni Vaxtarsamnings og framgang þeirra og verður sú skýrsla lögð fyrir iðnaðarráðuneytið.
Undanfarin tvö ár hefur verið stutt við um tuttugu verkefni á ári, eða fjörtíu og tvö verkefni samtals. Í fjórum tilfellum hefur verið um framhaldsverkefni að ræða og frekari uppbyggingu klasa. Tæplega helmingur þess fjármagns sem veitt hefur verið til verkefna hefur farið til ferðaþjónustu en önnur verkefni eru tengd matvælaframleiðslu, iðnaði eða menntun og rannsóknum.
,,Mikið hefur áunnist í að byggja upp grunngerð ferðaþjónustunnar. Þar höfum við litið þröngt á einstök svæði og reynt að styðja við svæðisbundna uppbyggingu svo þau gætu tekið þátt í samvinnu á fjórðungs- og landsvísu. Ríki Vatnajökuls er mjög gott dæmi um þetta, þar sem um sjötíu aðilar hafa gerst hluthafar í því félagi. Djúpivogur er annað gott dæmi. Þar eru frábær frumkvöðlaverkefni og nú komin inn manneskja til að halda utan um hlutina og virkja svæðið. Fleiri dæmi um afurðir vaxtarsamningsins eru tvö áhugaverð verkefni tengd landbúnaði. Annað er nefnt Heimafóður og snýst um notkun kögglunarvélar til framleiðslu köggla úr allskonar fóðri til að nota t.d. í lífrænni framleiðslu og til betri nýtingar fóðurs almennt. Hitt verkefnið er efling lífrænnar framleiðslu. Það er hugmynd sem kom upp í kringum mjólkurstöð MS á Egilsstöðum, sem var til skamms tíma í nokkurri tilvistarkreppu. Skoðað var hvort hvetja mætti mjólkurbændur til framleiðslu lífrænnar mjólkur og að sérhæfa þannig mjólkurbúið í lífrænni framleiðslu. Verkefnið hefur síðan víkkað út og nú er verið að skoða lífræna framleiðslu almennt.
Að frumkvæði Vaxtarsamningsins er nýbúið að stofna matvælaklasa sem lofar mjög góðu. Þar er gríðarlega öflugt fólk úr öllum fjórðungnum sem nú hefur gripið boltann og heldur áfram með þróun verkefna. Þá er nýbúið að stofna formleg samtök um hvers konar nytjar hreindýra og stuðlar Vaxtarsamningur að því að koma málum á rekspöl.“ Björk segir að nýta megi þá austfirsku auðlind hreindýr mun miklu betur en gert sé í dag og að nú virðist ríkja samstaða um að ná því fram.
Fjórðungurinn leiðandi
Tengslanet austfirskra kvenna er frumkvöðlaverkefni á landsvísu sem fékk stuðning Vaxtarsamningsins. ,,Það er mjög mikilvægt fyrir svæðið að hér séu samtök sem byggi upp samtakamátt kvenna og hef ég verið mjög hreykin af þessu verkefni. Í júní verður stofnað tengslanet kvenna á Vesturlandi og fljótlega á Vestfjörðum og er TAK fyrirmynd þessa.“ Það er athyglisvert að þó Austurlandi hafi jafnan farið hægt yfir, eru ýmis grundvallarverkefni sem skipta miklu máli í uppbyggingu samfélagsins fyrirmynd fyrir aðra landsfjórðunga. Má þar nefna Markaðsstofu Austurlands, Menningarráð Austurlands, Tengslanet austfirskra kvenna og Þjóðleik. Sérfræðiframlög vaxtarsamningsins hafa nýst misvel, en Þjóðleikur er dæmi um verkefni sem varð til vegna tengsla sem sérfræðiframlag Vaxtarsamnings gerði möguleg. Þar sem náðst hefur að koma sérfræðiframlagi að hefur það skilað mjög miklu. Vöktunarverkefni um möguleika atvinnuuppbyggingar í kringum Vatnajökulsþjóðgarðs er enn eitt dæmið um verkefni samningsins. Það mun væntanlega skila miklu á komandi árum. Þá má nefna handverksklasa og safnaklasa sem báðir eru í þróun.
Höfn í Hornafirði er innan Vaxtarsamnings sem undirritaður var í janúar 2007 og lýkur í enda þessa árs. Ekki er gert ráð fyrir að Hornfirðingar taki þátt í nýjum samningi fyrir Austurland. Nýheimar og Ríki Vatnajökuls eru afbragðsgóð dæmi um uppbyggingu öflugs samstarfs og afraksturs þeirra. Björk hefur fulla trú á að miðsvæði Austurlands eigi fullt eins mikil tækifæri, ef ekki enn fleiri.
,,Vaxtarsamningur Austurlands kemur að þróunarvinnu og uppbyggingu, en síðan er það að sjálfsögðu sveitarfélaganna og aðilanna á svæðunum að sjá virðið í því sem búið er að gera og halda því áfram. Vaxtarsamningurinn er því ekki að setja rekstrar- eða fjárfestingarfjármuni inn í verkefni, heldur er þetta þróunarvinna. Og því skal haldið til haga að þróunarhugmyndir Vaxtarsamningsins eru einskis virði ef íbúar fjórðungsins vilja ekki vinna að framkvæmd þeirra. Vaxtarsamningurinn hefur klárlega haft mikil og varanleg áhrif og til lengri tíma litið er sú stefnubreyting og vitundarvakning um mikilvægi samstarfs sem samningurinn hefur leitt af sér, það sem mestu mun skila til samfélagsins,“ segir Björk. Hún er bjartsýn á endurnýjun samningsins, enda virðist vilji hjá þingmönnum og ríkisstjórn til að draga ekki úr framlögum til nýsköpunar.
Samtals 191 milljónum króna hefur verið varið til Vaxtarsamnings Austurlands á þremur árum. 60 milljónir króna hafa komið frá iðnaðarráðuneyti, 24 milljónir frá austfirskum sveitarfélögum, 42 millljónir króna frá fyrirtækjum og 65 milljónir í formi sérfræðivinnu. 126 milljónir hafa því runnið í gegn í formi fjármagns. 55 aðilar eru að samningnum, 18 fyrirtæki, allir háskólarnir (8), öll níu sveitarfélögin á Austurlandi, 20 rannsóknar-, þróunar- og menningarstofnanir/félög.
Mynd:Björk Sigurgeirsdóttir