Búsetutengd mismunun í heilbrigðisþjónustu, í boði einkavæðingar og heilbrigðisráðherra Framsóknar

Búsetutengdur munur á notkun þjónustu sérgreinalækna er mjög mikill. Íbúar dreifbýlis nota þjónustuna mun minna en höfuðborgarbúar og íbúar Vestfjarða og Austfjarða minnst allra, nefnilega þrisvar sinnum minna en höfuðborgarbúar.

Lýðheilsuvísar benda ekki til þess að íbúar í dreifbýli séu heilsubetri en höfuðborgarbúar. Nærtæk skýring á þessum mun er að kaupandi þjónustunnar, ríkið, lætur sig engu varða hvar þjónustan er veitt og hún hefur nær öll byggst upp í Reykjavík. Í versta falli er afleiðingin sú að þau sem búa næst þjónustunni nýta hana umfram þörf og hin sem fjær búa minna en æskilegt væri. Hvoru tveggja er hættulegt og brýnt að rýna lög og hvort þeim er fylgt.

Er farið að lögum?


Heilbrigðisþjónusta á Íslandi er almennt góð. Í lögum um hana segir m.a.; „að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita“ og það í samræmi við lög um réttindi sjúklinga. Í fyrstu grein þeirra laga segir m.a.: „Óheimilt er að mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Hluti af samfélagslegri stöðu er búseta og augljóslega má því ekki mismuna íbúum á þann hátt sem að ofan greinir. Loks segir í Heilbrigðisstefnu til 2030 (samþykkt í tíð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra); „Skipuleggja þarf sérfræðiþjónustu hvers heilbrigðisumdæmis út frá þörfum íbúanna“.

Jafnvel íhaldinu ofbauð!


Áratugum saman hefur þjónusta sérgreinalækna fengið að þróast á eigin forsendum, án samræmingar við aðra heilbrigðisþjónustu og án tillits til þarfa dreifbýlis. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra lokaði í desember 2015 samningi Sjúkratrygginga og sérgreinalækna, enda hafði samningurinn reynst opinn krani sem úr lak sífellt meira almannafé. Bragð er að þá íhaldinu ofbýður útþensla einkaframtaksins, svo ekki sé meira sagt. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lét vinna mikla greiningarvinnu á þjónustu sérgreinalækna og þá var bent á fyrrnefnda mismunun og nauðsyn þess að draga úr henni. Svandís vildi semja með hag allra landsmanna í huga en vannst ekki tími til þess. Willum Þór Þórsson tók við og samdi við sérfræðilækna með þeirra hag sem vegvísi. Framsóknarráðherrann festi því í sessi rótgróna búsetutengda mismunun í aðgengi að þjónustu sérgreinalækna. Það er ólíðandi og rýmkaðar endurgreiðslur ferðakostnaðar eru bara lélegir plástrar á krónísk sár mismununar.

Er PLAN Samfylkingar boðlegt?


Þann 30. okt. sl. birtist, á visir.is, greinin „Heilbrigðiskerfi okkar allra“ eftir Ölmu Möller landlækni sem skipar 1. sæti Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi. Eins og vænta má er grein Ölmu áhugaverð, en hennar flokkur sýnist ekki setja það í forgang að bjóða sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni. Um plan Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum, „Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum“, segir Alma m.a.; „...áhersla er lögð á að styrkja grunnþjónustu svo sérhæfðari þjónusta geti starfað betur...“

Auðvitað þarf að styrkja grunnþjónustu en ekki bara svo sérhæfðari þjónusta geti starfað betur og allra síst ef afrakstur styrkingarinnar, hvað varðar sérfræðiþjónustu í dreifbýli, á að helgast af því hvort og hvað út úr því kemur „...að skoða hvort sérfræðingar geti ekki heimsótt landsbyggðina í ríkari mæli ...“ líkt og Alma ritar.

Sænska vítið til varnaðar


Staðreynd er að einn mesti ógnvaldur lýðheilsu bæði innan þjóðfélaga og á milli þjóða er ójöfnuður. Margir vísinda- og fræðimenn telja einkavæðingu í innviðum s.s. skólum og heilbrigðiskerfi auka ójöfnuð. Markaðs- og einkavæðingu í sænska heilbrigðiskerfinu, kerfi sem almenningur fjármagnar líkt og hérlendis, hefur aukið ójöfnuð, m.a. á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Gagnleg lesning um þetta er auðlæs bók nýlega þýdd úr sænsku „Jafnrétti í heilbrigðisþjónustu – aðgerðaáætlun“, sem aðgengileg er á netinu.

Hvað er til ráða?


Með vísan í heilbrigðisstefnu til 2030 og fyrrnefnd tvenn lög er rökrétt og skylt að bregðast við þessari mismunun. Skilgreina þarf án tafar þá þjónustu sérgreinalækna er veita skuli sem nærþjónustu, þ.e. að hún verði aðgengileg í öllum heilbrigðisumdæmum, samfellt eða reglulega. Þetta er í senn brýnt heilbrigðismál og byggðamál og hefur áhrif á lífvænleika samfélaga, lýðheilsuna. Í samræmi við reynslu þess okkar sem gengt hefur læknisstarfi í dreifbýli í nær 40 ár, teljum við að í hverju heilbrigðisumdæmi skuli veita þjónustu fimm sérgreina; kvensjúkdómalækninga, barnalækninga, öldrunarlækninga, augnlækninga og geðlækninga. Við fullyrðum að í dag eru, með vísan í lög um heilbrigðisþjónustu, „tök á að veita“ þessa þjónustu í dreifbýli standi vilji stjórnavalda til þess.

Vinstri græn hafna búsetutengdri mismunun og við ítrekum mikilvægi þess að heilbrigðiskerfið sé skipulagt á félagslegum forsendum og út frá þörfum allra íbúa þessa lands.

Við hvetjum öll og ekki síst íbúa NA- og NV-kjördæma til að íhuga þetta og kjósa VG 30. nóvember nk., telji þau jafnan rétt í aðgengi að heilbrigðisþjónustu skipta máli.

Álfhildur Leifsdóttir, kennari og oddviti VG í Norðvesturkjördæmi
Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur og oddviti VG í Norðausturkjördæmi
Guðlaug Björgvinsdóttir, öryrki og skipar 3. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi
Pétur Heimisson, heimilislæknir og stjórnarmaður í VG


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.