Cathy Ann Josephson: „Bíð ekki eftir fólki sem segir alltaf nei“

Cathy Ann Josephson segist vera með sex húfur – eiginkona, myndlistakona, handverkskona, gistihúsarekandi, kvenfélagskona og vesturfarasérfræðingur. Hún fluttist til Íslands fyrir fjórtán árum og vill hvergi annars staðar vera en í Vopnafirði. Hún hefur flutt tæplega þrjátíu sinnum á ævinni, missti manninn sem hún giftist fyrst á Vopnafirði úr krabbameini. „Við skulum ekki ræða um veðrið – það er ekki til neins,“ segir hún okkur.

Cathy Ann Josephson er 57 ára gamall Íslendingur, áður Vestur-Íslendingur. Hún er lítil og snaggaraleg. „Verið bara eins og heima hjá ykkur,“ segir hún þegar hún tekur á móti okkur og vísar til herbergisins. Cathy ólst upp í Minnesota í Bandaríkjunum en heimsótti Ísland fyrst árið 1994 til að vitja upprunans.

„Þá voru liðin 100 ár síðan afi fluttist. Hann var tveggja ára þegar hann fór með foreldrum sínum frá Vopnafirði. Afkomendurnir í Minneapolis hittust árlega og fóru út að borða. Okkur fannst það orðið leiðinlegt svo við ákváðum að koma til landsins. Afi giftist þrisvar og átti börn með öllum konunum svo við áttum skyldmenni um allt land.“

Cathy segir dýpst hafa verið á tengslunum við Vopnafjörð. „Pabbi fann bréf frá afa með nafni Friðriks Sigurjónssonar. Ég prófaði að senda bréf á hann. Nokkrum vikum seinna hringdi djúpraddaður maður, barnabarn hans og alnafni. Ég segi stundum að ég hafi sent bréf á dáinn mann og hann fengið það.

Við vorum 27 sem komum austur og okkur var hent út í Möðrudal. Við vissum ekki hvernig við ættum að komast til Vopnafjarðar en það kom rúta og sótti okkur. Í henni var Haukur, hálfbróðir Friðriks sem ég giftist síðan og hann skipulagði ferðina fyrir okkur. Þegar við vorum hjá kaupfélaginu kom til okkar maður og las með mér á ættartöflu. Hann fór að gráta. Haukur útskýrði að þetta væri stjúppabbi hans og afi hans og afi minn hefðu verið systkinabörn.

Ég hafði pælt nógu lengi í íslensku til að skilja hvað var í gangi og sagði við Hauk „Þegiðu – þú truflar okkur.“ Sigurjón sagði mér að þau hefðu ekki vitað hvað varð um langömmu mína sem dó nokkrum árum eftir að við komum til Minnesota.“

Afi og amma Cathy voru íslensk en mamma hennar, frá Arkinsaw fylki, af írskum og bandarískum ættum. „Hún var íslenskari en hann. Hann vildi vera eins og venjulegt fólk en hún var meiri villimaður,“ segir Cathy og bætir við að fjölskyldan hafi haldið íslensk jól. „Afi og amma töluðu íslensku og pabbi getur bjargað sér á íslensku. Ég eyddi fyrstu árunum hér í að hlusta á fólkið tala og reyndi að grafa upp málfarsbækur. Ég þurfti þrjú eða fjögur ár áður en ég gat lesið bækur án þess að vera með orðabók.“

Heim í Refsstað

Hún giftist síðan leiðsögumanninum Hauki. „Hann skynjaði hvernig mér leið úti í Bandaríkjunum og bauð mér að koma. Ég fór heim og það tók mig sex mánuði að henda, selja og gefa allt sem ég vildi ekki taka með mér. Ég kom aftur í mars árið 1995 og við Haukur giftum okkur í ágúst. Um haustið lenti bróðir minn í slysi og við fórum til Bandaríkjanna í ár til að hjálpa honum. Eins og flestir Íslendingar vann ég eins og skepna í frystihúsinu og þreif á elliheimilinu. Ég bjó ein í þrjú ár á Hámundarstöðum, sem eru út með firðinum á leiðinni til Bakkafjarðar.

Þar byrjaði ég að reka gistihús til að fá félagsskap. Ég kynntist nýjum manni, Sverri Ásgrímssyni og við bjuggum fyrst í litlu húsi á Vopnafirði. Það hafði verið til sölu í heilt ár og seldist loksins. Sverrir missti vinnuna og við þurftum að fara. Hann var frá Þórshöfn svo við fluttum þangað í tíu mánuði áður en við komum aftur og keyptum Refsstað II. Mér fannst allt í lagi að vera á Þórshöfn en heimaslóð mín er á Vopnafirði. Langalangamma mín fæddist á Refsstað og er skyld þeim sem eiga jörðina, en ég vissi það ekki fyrr en eftir að ég keypti,“ segir Cathy og þylur upp fjölda vestur-íslenskra Vopnfirðinga og bendir í allar áttir. „Langafi var frá Hrafnsstöðum og langamma fæddist í Viðvík... við skulum hætta þessu.“

Áhuginn nægur vestra

Cathy starfar á Vesturfaramiðstöð Austurlands í Kaupvangi á Vopnafirði. Þar var um helgina opnuð sýning tengd vesturferðunum. „Ég er Vestur-Íslendingur svo ég á auðvelt með að tengja. Ég hafði grúskað töluvert í ættfræði og skrifaði 100 ára sögu íslensku kirkjunnar í Minneapolis. Þegar ég kom til Íslands fann ég hversu miklu ég hafði safnað saman. Fyrir nokkrum árum byrjaði ég að setja saman vesturfaraskrá frá Vopnafirði og ég er komin með manntöl og kirkjubækur.“

Hún segir Íslendinga í vesturheimi varðveita uppruna sinn vel. „Áhuginn er nægur. Ég vissi alltaf að afi væri frá Vopnafirði, amma frá þessum bæ og svo framvegis. Menn vilja ekki sleppa tengingunni. En það er erfiðast að selja þeim hugmyndina um að koma hingað og finna jörðina. Ég fór einu sinni með manni og konunni hans, sem er norsk og frönsk, inn að Grundarhól sem er innan við Grímsstaði á Fjöllum. Þau grétu þegar þau komu á staðinn því þau höfðu heyrt svo mikið um staðinn.

Ég fór líka með 89 ára gamalli vestur-íslenskri konu inn að Hofteigi. Hún vildi standa á sama stað og gamli torfbærinn var. Þar er bara gras í dag en hún stóð og horfði í kringum sig og hugsaði „já – þetta hefur afi séð þegar hann stóð í bæjardyrunum.“ Fólk fæðist með þessar tilfinningar. Þær eru ekki áunnar.“

Cathy hefur lent í ýmsu skrautlegu þegar hún hefur aðstoðað Vestur-Íslendinga í leit að upprunanum. „Ég fékk eitt sinn afkomanda Jóns Hrafnssonar. Ættarnafnið hafði breyst og var orðið Rafsson því mamma þeirra barnanna hafði látið þau skrifa það vitlaust. En mér fannst nafnið fyndið því maðurinn vann sem rafvirki.

Stundum kemur fólk og segir „við ætlum að finna ömmu okkar.“ Stundum get ég hjálpað því. Ég fékk einu sinni mann af norskum ættum. Hann sagði við mig. „Ég held að amma sé að sækja mig og vilji að ég finni hana – var hún kannski íslensk.“ Og ég svaraði: „Auðvitað var hún íslensk. Ég vissi það fyrir löngu og ég hélt að þú vissir það líka. Hann dó nokkrum árum síðar en hann fann hana. Þetta er tilfinning sem er til staðar.“

Pöddudagar

Faðir Cathy býr í Minneapolis. „Hann er góður sölumaður og vísar vestur-íslensku fólki til mín. Ég borga honum með að heimsækja hann annað slagið. Hann verður 88 ára í september og er nánast hættur að vinna,“ segir Cathy og bendir á bolinn sem hún er í, merktum „Boxelder Bug Days“. „Bill Holm, frændi minn á Hofsósi, skrifaði þúsund ljóð um þessa pöddu. Pabbi var beðinn um að vera yfir bæjarhátíðinni og bað Bill um leyfi til að nota pöddunafnið. Bæjarhátíðin var að deyja út en pabbi reif hana upp, hún er núna þrír dagar og það er pöddu-drottning, pödduljóðakeppni og ekta amerísk pödduskrúðganga.“

Tertuskreytingakona

Upp um alla veggi eru málverk, af fjöllum, fjörðum, fólki og trjám. Þegar við rýnum í þau kemur nafn Cathy fram niðri í hægra horninu. „Ég fór að mála til að kynnast fólki. En ýmsir sem hafa séð myndirnar mínar hafa sagt mér að hætta að hugsa um heimilið og fara bara að mála.“

Hún er líka virk í kvenfélaginu og hópnum að baki handverkshúsinu „Nema hvað“ á Vopnafirði. „Ég var ekki spennt fyrir kvenfélaginu en þær færðu mér umslag með peningum þegar Haukur dó. Fyrir mér var upphæðin gríðarleg og mér fannst ég ekki verðskulda hana en gekk í kvenfélagið. Ég er 1. maí tertuskreytingakona hjá því.“

Flyt næst á elliheimilið

Cathy rekur bændagistingu á Refsstað II, þar sem hún býr. „Það er gaman að fá fólk sem steinsefur framundir hádegi þó það sé ókunnugt á staðnum. Það er pláss fyrr níu fullorðna í gistingu. Við komum gistingunni upp örfáum dögum eftir að við fluttum hingað í júní 2004. Ég hef flutt 29 sinnum á ævinni svo ég kann það.

Ég er alin upp í sveit og mér líður vel í sveit. Ég vil ekki vera annars staðar en hér, ekki einu sinni fara til Egilsstaða. Mér finnst ég hafa flutt nógu oft. Bestu vinkonur mínar búa hér. Ég flutti svo oft í Bandaríkjunum að ég átti engan sem ég gat sest niður með og spjallað við. Því finnst mér ég rosalega rík kona. Næst þegar ég flyt verður það á elliheimilið eða í kirkjugarðinn!“

Ríkið hefur afskrifað Vopnafjörð

Cathy finnst sárt að sjá á eftir fólki sem flyst frá Vopnafirði. „Það er ekki Vopnfirðingum að kenna að störfunum fækkar. Fólkið sem er hér vill vera hér og það þarf næstum að draga það í burtu. Sumt heimafólk segir: „Það er ekkert hér, það er best að vera í Reykjavík. Það er best að krakkarnir okkar fari og komi aldrei aftur.“ Það er vitleysa. Við getum ekki verið með tómt land. Það er bæði hættulegt og sorglegt.“

Skuldinni skellir hún á ríkisstjórnina. „Ég er sannfærð um að ríkisstjórnin hefur eyðilagt sjávarútveginn og smábátana með kvótakerfinu. Smábátarnir eru fyrirtæki sem græða peninga. Það eru minni peningar og færri störf og ekki endilega þau bestu á landsbyggðinni en það geta ekki allir orðið kennarar eða sérfræðingar úti á landi.“

Hún óttast að næst verði ráðist gegn landbúnaðinum. „Fólk sem er mjög klárt en finnst gott að búa í sveit nýtur ekki virðingar. Það er fólk í borgunum sem er sannfært um að bara fávitar búi uppi í sveit. Það er ekki satt – það gæti verið öfugt,“ segir hún og kímir en bætir síðan við: „Það er best fyrir Vopnfirðinga að sætta sig við að ríkið hefur afskráð okkur. Við erum ósýnileg og gleymd á bakvið Smjörfjöllin. Bensínið er of dýrt til að við getum unnið í Fjarðabyggð eða Fljótsdalshéraði. “

En Cathy telur líka að Vopnfirðingar verði að móta sér ákveðnari hugsunarhátt. „Ég er mjög hrifin af Langanesbyggð. Þar gera menn sér grein fyrir að ferðafólk kemur og fer en skilur eftir peninga. Við verðum að gera það líka hér. Svæðið er gríðarlega fallegt en þjónustumiðstöðvarnar opna of seint. Það hefur einhver sett skilti inn í hausinn á fólki þar sem stendur: „Ferðafólk kemur ekki hingað!“,“ segir hún og snýr sér að okkur. „Hvað eruð þið að gera hér? Erlendir ferðamenn vilja fara yfir Hellisheiðina. Ég hef fengið þýska ferðamenn til mín sem sögðu við mig. „Við fórum dauðhrædd yfir fjallið fyrir tuttugu árum – getum við farið aftur?“

Cathy segist ekki hrædd við að reyna eigin leiðir. „Ef ég viðurkenni að eitthvað sé of erfitt er ég hætt að reyna. Ég er bandarísk og við bíðum ekki eftir fólki sem segir alltaf nei.“

Cathy Ann Josephson frá Refsstað í Vopnafirði hlaut á nýársdag heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Af því tilefni endurbirtum við viðtal úr Austurglugganum frá í ágúst 2008 þar sem Cathy segir frá uppruna sínum, ættfræðiáhuganum og ást sinni á Vopnafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.