Dómar vegna ofbeldisbrota

Héraðsdómur Austurlands kvað í gær upp þrjá dóma vegna ofbeldisbrota. Átján ára karlmaður var dæmdur í eins mánaðar langt skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás, en hann sló annan mann hnefahöggi í andlitið á veitingastaðnum Café Kósý á Reyðarfirði í marsmánuði, með þeim afleiðingum að brotaþoli nefbrotnaði og hlaut glóðarauga á vinstra auga. Auk skilorðsbundins fangelsisdóms var ákærða gert að greiða sakarkostnað, tæpar 19.000 krónur. Héraðsdómur dæmdi einnig karlmann um tvítugt í eins og hálfs mánaðar langt skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og brot gegn valdstjórninni sem framin voru í nóvember. Maðurinn veittist að manni á skemmtistaðnum Dátanum á Akureyri og veitti hnefahögg, með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut áverka í andliti. Þá sparkaði maðurinn niður lögreglumann sem hafði afskipti af honum vegna fyrrgreinds atviks fyrir utan skemmtistaðinn. Þá dæmdi Héraðsdómur Austurlands sautján ára stúlku fyrir líkamsárás, en ákvörðun refsingar var frestað vegna ungs aldur stúlkunnar og hreins sakavottorðs. Hin ákærða réðst á konu á skemmtistaðnum Egilsbúð í Neskaupstað í febrúar, en þá var hin ákærða sextán ára gömul. Hún sló konuna hnefahögg í andlitið og nokkur högg í höfuðið, með þeim afleiðingum að sú hlaut glóðarauga á báðum augum og bólgur í andliti og höfði. Auk dómsins var ákærðu gert að greiða sakarkostnað, tæplega 106.000 krónur.

600-00911566minni.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.