Draumur um bókabúð

Fyrir fáeinum árum dreymdi mig um að góðærið myndi geta af sér góða og fallega bókabúð í bænum þar sem ég bý. Og kannski bakarí sem opnaði snemma með rjúkandi nýbökuðu, líka á sunnudagsmorgnum. Gott ef ég hélt ekki að kvikmyndahús sprytti upp líkt og fyrir galdra og kannski meira að segja framandlegur veitingastaður í þokkabót. Það átti svo margt að dafna og einstaklingsframtakið að blómstra.

 

 

Nú horfi ég yfir bæinn minn og velti vöngum.

 

Við erum þó ekki á flæðiskeri stödd. Margt er hér góðrar þjónustu.

Svo er aðeins steinsnar yfir á Seyðisfjörð þar sem Herðubreiðarbíó sýnir stundum myndir fyrir börn og fullorðna. Þar brakar í gólfum og klappstólum og stemningin er líkt og um miðja síðustu öld, næstum því hátíðleg í hvert sinn og ný sýning byrjar.  Það er þessi líka öndvegis bókabúð á Eskifirði; Eskja, þar sem allt fæst og ef það fæst ekki er því bjargað fyrir mann. En það er að ég best veit eina skikkanlega bókabúð fjórðungsins síðan Bókabúðin Hlöðum hætti starfrækslu. Þangað lögðu raunar fornbókamenn landsins leið sína sérstaklega til að athuga um góðar og sjaldgæfar gamlar bækur.

Þetta með bakaríið eru auðvitað tómir draumórar sem best eru geymdir í bakþankanum. Eins og maður geti nú ekki alveg keypt frystar bollur og vermt þær í ofninum á sunnudagsmorgni, nú eða klappað sitt eigið brauð. Og hvað framandlega veitingastaði snertir ætti ég ekki að kvarta, með allskonar veitingahús bæði í bænum mínum og í nágrannabyggðarlögum.

Það er þjónusta út um allt og ekki vandræðin að sækja sér hana um nokkurn veg, við erum jú vön vegalengdum hér um slóðir. Eða eins og ágæt kona ofan af Efri-Jökuldal sagði mér einu sinni, þá er nú bara ekkert mál að keyra klukkutíma eftir einum kaffipakka ef svoleiðis vantar í búið. Og svo annan klukkutíma heim með kaffið.

Ung dóttir mín hefur lýst því yfir að þegar ég verði gömul skuli ég láta draum minn rætast og opna þessa bókabúð sem ég sé alltaf að tala um að vanti. Hún skuli skrifa bækurnar og vera afgreiðslukona, ég geti raðað í hillurnar og átt hyldjúpar samræður við þá skemmtilegu og kynlegu kvisti sem komi til að versla í bókabúðinni. Ja, hvað veit maður?

  

Steinunn Ásmundsdóttir

 

(Leiðari Austurgluggans 2. apríl sl.)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.