Eflum flugvellina okkar

Við höfum öll orðið vör við talsverða fjölgun ferðamanna til Íslands á síðastliðnum árum. Flestar ferðir til og frá landinu eru í gegnum Keflavíkurflugvöll. Hins vegar eru ný flugfélög að ryðja sér rúms hér á landi, en ferðir þessara félaga fara gegnum flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum.

Í kjölfarið sjáum við stóraukningu veitingastaða, gistirýma, afþreyingar og verslana á svæðinu. Með auknu flugi og aukinni verslun og þjónustu getum við aukið velmegun svæðisins til muna. Við þessa þróun myndast ný tækifæri á Norðausturlandi. Við þurfum að grípa tækifærin þegar þau birtast okkur, finna leiðir að betri og sanngjarnari dreifingu ferðamanna á milli landshluta og efla á sama tíma samgöngur um svæðið okkar. Það er okkur öllum og samfélaginu til heilla. Fyrsta skrefið er að efla flugvellina enn frekar.

Jöfnun millilandaflugvalla

Keflavíkurflugvöllur er langöflugasti flugvöllur landsins. Flest flugfélög leita þangað til að byrja með og hægt er að velta fyrir sér ástæðum þess. Aðstöðumunur millilandaflugvalla er mikill og ýmsar ástæður eru fyrir því. Þessar ástæður verða skýrari með aukinni notkun flugvallanna á Norðausturlandi í millilandaflugi.

Til að mynda er áberandi munur milli flugvalla í kostnaði á flugeldsneyti og afgreiðslu þess. Eldsneytið er töluvert dýrara t.d. á Akureyri og Egilsstöðum ef tekið er mið af verðinu í Keflavík. Þessi munur felst fyrst og fremst í kostnaði á flutningi eldsneytisins, sem berst fyrst til Helguvíkur og flyst þaðan þvert yfir landið. Sérfræðingar hafa bent á þennan mun og þýðingu hans fyrir flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Með jöfnun kostnaðar á flugvélaeldsneyti höfum við tækifæri til að bæta stöðu flugvallanna til muna. Annars er möguleg hætta á stöðnun.

Hér erum við einnig að ræða um að betri dreifing á flugvélaeldsneyti um landið er öryggismál. Neyðarbirgðir af flugvélaeldsneyti þarf að vera hægt að geyma á fleiri en einum stað. Í neyðartilvikum geta slíkar birgðir reynst nauðsynlegar.

Finnum bestu leiðina

Sérfræðingar hafa bent á ýmsar leiðir til að jafna umræddan kostnað. Allt frá niðurgreiðslu kostnaðar að hálfu ríkisins, fjárfestingu í betri innviðum fyrir afgreiðslu og geymslu birgða til stofnunar óhagnaðardrifinna afgreiðslufélaga.

Hér er um að ræða töluverð tækifæri í þeirri mikilvægu aðgerð að jafna atvinnutækifæri á svæðinu, efla flugvellina og á sama tíma að gera Norðausturland samkeppnishæfara í ferðaþjónustu. Ferðamenn eru á einu máli; svæðið er fallegt og þjónustan er góð. Innviðirnir og áhuginn eru til staðar til að taka á móti fleiri ferðamönnum, en þeirra fyrsti viðkomustaður eru alltaf flugvellirnir.

Vegna þessa hefur undirrituð lagt fram beiðni um skýrslu frá innviðaráðherra um jöfnun kostnaðar vegna flugvélaeldsneytis og afgreiðslu þess á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum í samanburði við Keflavíkurflugvöll. Í skýrslunni skal farið yfir allar hugsanlegar aðgerðir til að jafna kostnað á flugvélaeldsneyti og greina hvernig við náum því markmiði á sem hagkvæmastan máta.

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður NA-kjördæmis

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.