Einherji sló Huginn út

Einherji sló Huginn út úr bikarkeppni karla í gær með 3-0 sigri á Vopnafirði. HK/Víkingur fór árangursríka ferð austur í 1. deild kvenna í knattspyrnu.

 

ImageSeyðfirðingar voru slegnir út af laginu strax í upphafi leiks þegar aukaspyrna Sigurðar Donys Sigurðssonar steinlá inni eftir fjögurra mínútna leik. Spyrnan var dæmt vel utan vítateigs en það skipti Donna engu. Hann sendi boltann upp í nærhornið, hægra megin við markmanninn. Á 22. mínútu skoraði Daði Petersen annað mark Einherja þegar hann skallaði inn aukaspyrnu frá hægri.
Undir lok fyrri hálfleiks virtist Donni felldur af markverði Hugins, þá sloppinn einn í gegn og í upplögðu marktækifæri. Dómarar leiksins voru ekki sammála og fékk Donni gult spjald fyrir leikaraskap.
Huginsmenn sóttu nokkuð í upphafi síðari hálfleiks en skópu sér ekki teljandi marktækifæri. Orkan í leik þeirra fjaraði smám saman út og í uppbótartíma skoraði Marteinn Þór Vigfússon þriðja mark Vopnfirðinga.

HK/Víkingur spilaði við austfirsku kvennaliðin í 1. deild kvenna um helgina. Á sunnudag unnu þær Fjarðabyggð/Leikni á Norðfirði 0-5 og í gær Hött á Fellavelli 0-4.

Tveir leikir fara fram í bikarkeppni karla í kvöld og hefjast báðir klukkan 20:00. Á Fellavelli tekur Höttur á móti Sindra og á Eskifirði mætast Fjarðabyggð og Leiknir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.