Eini flokkurinn sem reynir að stöðva skriðuna

,,Þegar sjást mikil merki þess hversu óráðlegt er að þjóðin nýti kosningar til að koma á hreinni vinstri stjórn,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á fundi á Egilsstöðum í gærkvöld.  Sigmundur Davíð ásamt Birki Jóni Jónssyni, Huld Aðalbjarnardóttur og Svanhvíti Aradóttur funduðu á Hótel Héraði og voru þar um áttatíu manns. Í gærdag hittu þau fólk víðar á Austurlandi.

framskn_fyrsta.jpg

,,Hrein vinstri stjórn væri þó það besta sem komið gæti fyrir Framsókn sem flokk, því þá liði ekki á löngu áður en menn sæju hversu mikilvægt er að Framsóknarflokkurinn komi að málum. Þetta væri hins vegar ekki það besta sem kæmi fyrir þjóðina. Því eru kosningarnar svo mikilvægar.“

 

Sigmundur Davíð sagði ekki þurfa að hafa mörg orð um frjálshyggjuna og Sjálfstæðisflokkinn. Þeir sem hefðu ekki þegar efast stórlega um Sjálfstæðisflokkinn eftir allt sem búið væri að ganga á, hefðu væntanlega lokið upp augum eftir landsfund hans. Sigmundur sagðist hafa miklar áhyggjur af ríkisstjórnarflokkunum og því hversu lítið ríkisstjórnin aðhefðist í raun til bjargar þjóðinni á þessum viðsjárverðu tímum.

 

Sigmundur Davíð sagði Framsókn eina flokkinn sem komið hefði fram með raunhæfar og róttækar tillögur til að fást við ástandið og stöðva skriðuna. Hjá ríkisstjórninni gengi hins vegar allt út á að bregðast við orðnum hlut; að taka við fyrirtækjum sem farin væru í þrot og aðstoða fólk í gjaldþrotaferli. Formaðurinn fór með fundarmönnum yfir hugmyndina að baki tillögu flokksins um að Íbúðalánasjóður veiti flata 20% niðurfellingu skulda vegna allra íbúðalána. Sagði hann algjört tómlæti ríkja gagnvart tillögunni, nema helst úr röðum  Sjálfstæðismanna, þar sem Tryggvi Þór Herbertsson hefði tekið undir að hún væri skynsamleg.  Ríkisstjórnin liti hins vegar á tillöguna sem ógn.

 

Ýmsir fundarmanna sóttu fast að Sigmundi Davíð og kröfðust svara um stefnu Framsóknar, t.a.m. varðandi gjaldmiðilinn, vaxta- og verðtryggingarmál. Framsókn hefði stöðvað eina duglausa ríkisstjórn en um leið komið á annarri duglausri ríkisstjórn og Sigmundur Davíð væri guðfaðir hennar.

,,Þetta er vissulega erfið staða að vera í en það getur orðið styrkur okkar, ef undirliggjandi áhyggjur almennings af hreinni vinstri stjórn ganga eftir í kosningum. Framsókn yrði þá til staðar til að passa upp á slíka stjórn og drífa hana áfram."

 

Sigmundur sagði það hafa verið rætt á þingfundum fyrir myndun núverandi stjórnar að slík skipan mála væri ekki líkleg til vinsældaraukningar fyrir Framsóknarflokkinn. Framsókn skæri þar Sjálfstæðisflokkinn niður úr snörunni og bjargaði Samfylkingunni inn í þægilegt samstarf með Vinstri grænum.  Velferð þjóðarinnar hefði hins vegar eins og alltaf verið tekin fram fyrir flokkshagsmuni og því hefði Framsókn afráðið að koma á starfhæfri ríkisstjórn. Það verði svo aftur til þess að þjóðin fái kosningar.

 

Birkir Jón Jónsson sagði miklar áhyggjur af atvinnustöðu námsmanna í vor og sumar. Tuttugu þúsund Íslendingar verði án atvinnu í vor og fjörtíu þúsund námsmenn komi þá um leið inn á vinnumarkað. Illskárra hljóti að vera að fólk geti stundað nám í einhverju mæli í sumar fremur en að mæla götunar. Að því sé vonandi verið að vinna hjá þeirri minnihlutastjórn sem Framsóknarflokkurinn verji nú vantrausti.

...

framskn_1.jpg

 

 

 

 Myndir/SÁ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.