Eitt Austurland?

Sveitarfélögin Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað stæðu upp úr ef öll sveitarfélög á Austurlandi yrðu sameinuð í eitt. Líklegast er að miðstöð stjórnsýslunnar yrði skipt milli þeirra eða sett í það stærra, Fjarðabyggð. Þetta kom fram í máli Grétars Þórs Eyþórssonar, prófessors við Háskólann á Akureyri, sem hélt fyrirlestur á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um mögulegt eitt stórt sameinað sveitarfélag á Austurlandi.

 

ImageSveitarfélögum á Austurlandi hefur undanfarin fimmtán ár fækkað úr þrjátíu í níu. Árið 1993 bjuggu 13.058 manns á Austurlandi en 13.901 samkvæmt tölum frá í upphafi árs. Sveitarfélögunum og íbúunum á áhrifasvæði SSA hefur fækkað enn frekar með úrsögn Sveitarfélagsins Hornafjarðar, með ríflega 2.000 íbúa, úr SSA. Inni í nýju tölunum er einnig töluvert af verkamönnum sem búast má við að detti af íbúaskrám á næstunni.

Eitt þúsund ekki nóg?

Væntanlegt er frumvarp um að sveitarfélög megi ekki vera með færri en eitt þúsund íbúa. Sex af átta sveitarfélögum innan SSA eru í dag undir mörkunum. Grétar segir að meirihluti þingmanna hafi til þessa verið mótfallinn lagasetningu en breytt viðhorf þeirra valdi því að aldrei hafi verið meiri líkur en nú á að slíkt frumvarp fari í gegn. Framundan er frekari færsla verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Málefni fatlaðra árið 2011 og aldraðra ári síðar. Fleiri verkefni geti fylgt í kjölfarið.

Grétar segir 1.000 manna sveitarfélög ekki nógu stórar einingar til að taka við málefnum fatlaðra en sagt sé að það megi leysa með samstarfi sveitarfélaga. „Gott og vel, en af hverju ekki taka stærri skref í sameiningarátt, fyrst á annað borð er verið að þessu? Erum við ekki bráðum á sama reit og fyrir 15 árum, það er að segja að í landinu séu of mörg lítil sveitarfélög miðað við þau verkefni sem þeim eru ætluð?“

Valdið fer til kjarnans

Grétar velti fyrir sér hvernig fyrirkomulag stjórnsýslu yrði í stóru sveitarfélagi eins og allt Austurland. Líklegast færi hún í stærstu núverandi sveitarfélögin, Fjarðabyggð  og Fljótsdalshérað. Önnur sveitarfélög fengju tæplega stóra sneið af stjórnsýslukökunni en þjónustu og stjórnsýslu yrði þó að einhverju leyti dreift milli staða. Framfarir í rafrænni stjórnsýslu gætu auðveldað stóra sameiningu, sem og jarðgöng og aðrar samgöngubætur.

Grétar fór einnig stuttlega yfir álit íbúa í sveitarfélögum sem þegar hafa sameinast. „Fólk virðist upplifa að valdið í nýju sveitarfélagi hafi þjappast saman í þjónustu og stjórnsýslukjörnunum. Í sveitarfélögum sem verða ekki í kjarnahlutverkinu upplifir fólk að valdið hafi farið til kjarnans, sérstaklega ef sveitarfélagið var meðalstórt í sameiningunni og hafði komið sér upp stjórnsýslu sem eitthvað kvað að.“

Í máli Grétars kom fram að byggðalegt jafnvægi á Austurlandi virðist hafa raskast með tilkomu álvers og virkjunar. Að sunnan- og norðanverðu hafi íbúum fækkað en ekki á miðsvæðinu þar sem stóru sveitarfélögin hafa orðið til.  Austurland hefur minnkað í þeim skilningi að styttra er í þjónustu og öruggara að ferðast en aðeins samgönguframkvæmdir á mið-Austurlandi stækki atvinnusvæði. Samgönguframkvæmdir í jörðunum nái tæplega að stytta vegalengdir svo að um daglega vinnusókn yrði að ræða frá jörðum inn í miðkjarnann.

Hvað með Vopnafjörð?

Grétar sér ekki fram á eitt stórt austfirskt sveitarfélag í bili. Líklegast sé að minni sveitarfélögin renni inn í þau stærri í fyrstu þannig að á svæðinu verði til 2-3 stór sveitarfélög. „Það er nokkuð ljóst að verði sett lög um lágmarksstærð upp á 1000 íbúa munu koma upp ýmsar spurningar. Til að ná mörkunum myndu þó sjáanlega nokkur af minni sveitarfélögunum sameinast þeim tveimur stærstu. Án þess að vera að spá nákvæmlega er ekki ólíklegt að Borgarfjörður, Fljótsdalshreppur og Seyðisfjörður sameinuðust Héraði. Breiðdalshreppur og Djúpivogur Fjarðabyggð. Meiri spurning væri með Vopnafjörð.
En engu að síður myndi 1000 íbúa lágmarkið ekki endilega leiða til margra sveitarfélaga kringum 1000 íbúa markið, heldur gæti Austurland orðið við slíkt 2-3 sveitarfélög.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.