Eldisþorski í Berufirði slátrað milli jóla og nýárs
Fyrirhugað er að slátra á næstunni um 50 tonnum af eldisþorski hjá fiskeldi HB Granda í Berufirði. Byrjað verður að slátra þorski á milli jóla og nýárs og lokið verður við slátrunina eftir áramótin. Þorskurinn verður unninn hjá fiskiðjuveri félagsins á Akranesi í fersk flakastykki og send með flugi á markað erlendis. Kristján Ingimarsson, forstöðumaður fiskeldis HB Granda á Djúpavogi, segir á vef HB Granda, að slátrað verði sunnudaginn 28. desember og mánudaginn 29. desember nk. og sá þorskur fari til vinnslu á Akranesi á mánudag og þriðjudag. Þráðurinn verði síðan tekinn upp að nýju eftir áramótin.,,Þessi þorskur varð til í klaki á Stað við Grindavík á vegum Icecod á árinu 2005 og kom hingað sem 100 gramma seiði vorið 2006 og þá var hann settur í sjókvíar. Stærð hans er nú um 2,3 kg að jafnaði,” segir Kristján en hann upplýsir að þorskurinn hafi vaxið ágætlega á þessu ári. Tvær kynslóðir eldisþorsks eru nú í eldi í sjókvíum HB Granda í Berufirði.
Síldarfrysting Hb Granda á Vopnafirði í uppnámi en þó full vinna í fiskiðjuverinu
,,Þetta er auðvitað eitthvað sem við þurftum síst á að halda um þessar mundir, sama hvort sem það er fyrirtækið, starfsfólkið eða þjóðarbúið,” segir Magnús Róbertsson vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði en sýkingin í íslenska sumargotssíldarstofninum hefur gjörbreytt öllum áformum um frystingu á síld til manneldis í fiskiðjuverinu á Vopnafirði.