Orkumálinn 2024

Enn ein gersemin á Austurlandi

Aðra helgina í júlí lagði ég leið mína til Stöðvarfjarðar, ásamt fleiri Pírötum, til að fagna 10 ára afmæli Sköpunarmiðstöðvarinnar.

Þar var gleðin svo sannarlega við völd, fjöldi fólks var samankominn, sól skein í heiði og trélíkneski landnámsmannsins Þórhadds hins gamla frá Mæri, eftir listamanninn Arngrím Sigurðsson, var afhjúpað.
Um Þórhadd segir í Landnámu:
Þórhaddur hinn gamli var hofgoði í Þrándheimi á Mæri(na). Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærina-helgi á allan fjörðinn og lét öngu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Hann bjó þar alla ævi, og eru frá honum Stöðfirðingar komnir.


Þórhaddur hefur væntanleg skorið sig rækilega úr hópi landnámsmanna, enda hefur hann líklega verið sá eini sem gerði landnám sitt að e.k. friðlandi, þó svo að það hugtak hafi ekki orðið til fyrr en löngu síðar, með því að leyfa einungis slátrun á búfé en ekki veiðar á villtum dýrum.


Vitaskuld var tækifærið notað og fornleifauppgröfturinn á Stöð barinn augum. Rannsóknir undanfarin 5 sumur hafa sýnt fram á að þar má m.a. finna leifar af tveimur skálum, sem hafa að hluta til verið byggðir hvor ofan á annan. Reyndar eru líkur á því að eldri skálinn hafi verið reistur um 800, þ.e. allnokkru áður en Þórhaddur kom til sögunnar, eins og fram komí viðtali Morgunblaðsins við Bjarna F. Einarsson, fornleifafræðing, þann 5. júlí sl.


Þessi fundur kollvarpar ekki bara þeim heimildum sem við höfum um upphaf landnáms á Íslandi, heldur mun vera um að ræða stærstu skálarústir sem fundist hafa hér á landi fram til þessa, þ.e. rústir eldri skálans, sem væntanlega hefur einungis verið notaður að sumarlagi. Það voru því engir aukvisar sem lögðu leið sína til Stöðvarfjarðar fyrir u.þ.b. 1.200 árum, hvort sem þeir höfðu hér fasta búsetu allt árið eða einungis hluta úr ári.


Mikið starf er enn óunnið við þessar rannsóknir en þegar þeim lýkur hljótum við að stefna að því að reisa veglegt sögusetur, t.d. með tilgátuskála, sem byggir á niðurstöðum þeirra rannsókna sem nú standa yfir, líkt og gert hefur verið að Eiríksstöðum í Haukadal. Með því getum við gert sögunni hátt undir höfði, óháð því hvort Þórhaddur hinn gamli var eiginlegur landnámsmaður Stöðvarfjarðar eður ei. Auk þess myndi bætast enn ein gersemin í flóru sögu, lista, og menningar á sunnanverðum Austfjörðum.

Einar A. Brynjólfsson, sagnfræðingur og oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.